Skjólstæðingur Félagsbústaða segir að búslóð hans hafi verið fargað í vor án vitundar hans eða samþykki. Þar á meðal hafi verið verðmætt málverkasafn, sem innihélt meðal annars dýrgripi eins og verk eftir Alfreð Flóka, Nínu Tryggvadóttur og Tolla, auk annarra eigna sem höfðu verið í vörslu stofnunarinnar í tvö ár.
Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins.
Í fréttinni kemur fram að viðvörun um hina yfirvofandi förgun eigna hafi verið send á skráð heimilisfang mannsins, sem var íbúð á vegum Félagsbústaða, en þar hafði hann ekki búið í eitt og hálft ár. Þá hafi hann ekki orðið var við tölvupóst á netfang sitt en ekkert símtal barst frá stofnuninni.
Búslóðin var geymd í gámi á vegum Félagsbústaða, í tvö ár eins og áður segir, en þeim var svo fargað tveimur mánuðum eftir að viðvörunin var send út í vor.
Segist skjólstæðingurinn, sem er á batavegi eftir harða baráttu við fíkniefnadjöfulinn, sjá mjög eftir verkunum en engar upplýsingar liggja fyrir frá Félagsbústöðum um hvernig staðið var að förguninni sem var falin verktökum.