Háttsettur úkraínskur njósnari, Ivan Voronych, var skotinn til bana um hábjartan dag í Kiev í gær. Upptaka af ódæðinu úr öryggismyndavél hefur verið í talsverðri dreifingu á samfélagsmiðlum og verið umfjöllunarefni helstu fjölmiðla heims.
Á myndbandinu sést Voronych ganga rólega yfir götu í Holosiivskyi-hverfinu í Kiev þegar flugumaður kemur skyndilega hlaupandi upp að honum, skýtur hann ítrekað af stuttu færi og forðar sér síðan á hlaupum. Eitthvað er af fólki í kring en flestir voru lengi að átta sig á því hvað væri í gangi því morðinginn notaði byssu með hljóðdeyfi.
Voronych lést samstundis en kollegar hans hafa sakað Rússa.
Stríðandi fylkingar hafa báðar staðið fyrir launmorðum á háttsettum einstaklingum frá því að stríðið hófst árið 2022. Aðeins eru liðnir þrír mánuðir síðan að rússneski hershöfðinginn Yaroslav Moskalik fórst þegar bifreið hans var sprengd í loft upp í íbúðahverfi í útjaðri Moskvu.