fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Var að keyra í bílaröð á Vesturlandsvegi og fékk hraðasekt – „Þessi upphæð er kvikindisleg“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 13:30

Frá Vesturlandsvegi. Mynd: Gunnar V. Andrésson. Tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsmenn takast á um hraðasektir og vilja sumir að hraðasektir verði tekjutengdar. Umræðan byrjaði á því að einn aðili deildi raunum sínum eftir að hafa fengið súra hraðasekt í Facebook-hópnum Vertu á verði – Eftirlit með verðlagi.

Aðilinn segist hafa verið að keyra á Vesturlandsveg, suður við Grundartanga, 88 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund.

„Viðurlög við ofangreindu broti er sekt að fjárhæð 30.000 krónur,“ segir hann og útskýrir mál sitt:

„Ég fylgdi allri röðinni og sá bara ekki þarna 70 kílómetra hraða merkinguna.  Löggæslumyndavélin myndaði alla röðina… eða að minnsta kosti voru margir teknir þennan laugardag í fallega veðrinu.“

Fyrir þennan aðila er sektin skellur.

„30.000 fyrir þann sem er í veikindaleyfi á endurhæfinglífeyrir er 10 prósent af launum.

Fyrir alþingismann sem fær 1.500.000 krónur í laun ætti hann ekki þá að greiða 150.000 krónur í sekt? Bara svona ef horft væri til launa! Og væri það ekki bara málið?

Verð að segja að þessi upphæð er kvikindisleg fyrir engan glæfraakstur og myndi ég mæla með að þessar löggæslumyndavélar hefðu frekar stóra og góða aðvörun eða áminningu um hámarkshraðann en stunda þessa ljósmyndun í felum á ómerktum bíl úti í kanti!“

Meðlimir hópsins blönduðu sér í umræðuna, sumir sögðu að hraðasektir ættu ekki að vera lægri, frekar hærri svo þær hafi áhrif.

Margir tóku undir með aðilanum, að það ætti að sekta eftir tekjum. „Það er rétt að þetta bítur þá tekjuhæstu ekkert,“ sagði einn.

Það var minnst á Finnland, en þar eru hraðasektir tekjutengdar og hefur til dæmis Anders Wiklöf, einn ríkasti maður Álandseyja, þurft að greiða 20 milljónir í hraðasektir.

Sjá einnig: Borgaði 20 milljónir króna í hraðasektir

Önnur manneskja sem fékk líka sekt, á sama stað, sama daginn, skrifaði við færsluna: „Við höfum verið í sömu röðinni… hvíti bíllinn sem var í vegöxlinni á Grundartanga-afleggjaranum hefur sannalega borgað laun þess sem þurfti að sitja í honum. Ég var aftasti bíllinn í 20-25 bíla röð sem var öll á sama hraða og ég fékk mína sekt senda núna fyrir helgina.“

Einn kom með gott ráð: „Alltaf gera ráð fyrir að allir bílar úti í kanti séu myndavélabílar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt