fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Markús Þór nýr safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 13:28

Markús Þór Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Markús Þór Andrésson hefur verið ráðinn safnstjóri Listasafns Reykjavíkur en hann hefur starfað sem deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá safninu frá árinu 2017.  Markús Þór er með MA gráðu í sýningarstjórn frá Bard Center for Curatorial Studies í Bandaríkjunum og BA próf í myndlist frá Listháskóla Íslands. Alls bárust 7 umsóknir um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. 

Kemur þetta fram á vef Reykjavíkurborgar.

Markús Þór hefur mikla og fjölbreytta reynslu og þekkingu af safnastörfum, einkum fyrir Listasafn Reykjavíkur en þar hefur hann unnið að fjölda sýninga, stýrt útgáfum og miðlað viðfangsefnum safnsins innan fræðaheimsins og til almennings jafnt með textagerð, á málþingum og með leiðsögnum. Hann hefur verið fulltrúi safnsins á alþjóðavettvangi meðal annars í verkefnum eins og alþjóðlegu samsýningunni Norður og niður. Sem deildarstjóri á Markús Þór sæti í stjórnendateymi safnsins auk þess sem hann er staðgengill safnstjóra.

Markús Þór hefur til margra ára starfað sem sjálfsstætt starfandi sýningarstjóri fyrir fjölda safna og sýningarstaða og unnið að sýningum jafnt hérlendis sem erlendis. Ber þar helst að nefna sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu árið 2015, sem var fastasýning um íslenskan sjónlistaarf og samstarfsverkefni sex ólíkra safna og menningarstofnana. Hann var einnig sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árið 2009 og í sýningarstjórn Norræna tvíæringsins Momentum 2011. Að auki hefur Markús Þór skrifað fjölda greina og ritstýrt bókum um myndlist, verið stundakennari, flutt fyrirlestra og tekið þátt í fjölda málþinga. Þá hefur hann sem leikstjóri heimildarmynda og dagkrárgerðarmaður sjónvarpsþátta um myndlist kannað ólíkar hliðar listsköpunar.

Niðurstaða ráðningarnefndar, sem í sátu Steinþór Einarsson, sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar, Auður Jörundsdóttir forstöðumaður Myndlistarmiðstöðvar og Hulda Stefánsdóttir myndlistarmaður og aðstoðarrektor rannsókna við Listaháskóla Íslands, og ráðgjafa Vinnvinn ráðninga sem sá um ráðningarferilinn, var að Markús Þór Andrésson mæti afar vel kröfum Reykjavíkurborgar um staðgóða þekkingu á sviði safnsins, leiðtogahæfni, frumkvæði og færni til að leiða þetta stærsta listasafn landsins áfram á farsælli braut.

Ráðningin er til fimm ára með möguleika á fimm ára endurráðningu. Tekur Markús Þór við stöðunni af Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur sem lætur af störfum eftir 10 ára starf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt