Eftir yfirlýsingu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra um vörn lýðræðisins og heitar umræður um fundarstjórn forseta í morgun þar sem hver stjórnarliðinn lýsti því yfir að nú yrði kosið um veiðigjaldafrumvarpið er umræðan um veiðigjöldin aftur komin á dagskrá þingsins og málþóf stjórnarandstöðunnar heldur áfram.
Umræðan hefur nú staðið yfir í tæpar 157 klukkustundir og mun halda áfram. En sumir stjórnarandstæðingar, til dæmis Jón Gunnarsson, hafa lýst því yfir að talað yrði í allt sumar til þess að hindra framgang málsins.
Eftir að frumhlaup Hildar Sverrisdóttur í gærkvöldi þegar hún sleit þingfundi í óleyfi var boðað til umræðunnar í morgun. Töluðu stjórnarliðar með ákveðnum hætti og bjuggust margir við að nú færi að draga til tíðinda. Það er að 71. grein þingskapalaga yrði beitt til þess að stöðva málþófið og koma máli ríkisstjórnarinnar í gegn.
Það gekk hins vegar ekki eftir. Engar aðgerðir til að enda málþófið voru boðaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar og heldur því málþófið áfram.