Línulega sjónvarpsstöðin SÝN (áður Stöð 2) verður í opinni dagskrá frá og með 1. ágúst nk. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. SÝN segist með þessu móti skrifa nýjan kafla í íslenskri sjónvarpssögu og næsta skref í vegferð sem hófst með samruna Vodafone og Stöðvar 2 undir merkjum Sýnar.
Eins verður pakkaframboð Sýnar einfaldað til að greiða aðgang fyrir áskrifendur. Þær áherslubreytingar verða gerðar samhliða að allt efni birtist fyrst á Streymisveitunni SÝN+ sem er ein stærsta streymisveita landsins. Áskrifendur munu njóta aukins sveigjanleika og fá aðgang að sjónvarpsefni áður en það birtist í línulegri dagskrá. Áskrifendur munu svo geta hámhorft hvar og hvenær sem er án þess að fá auglýsingar inni í þáttum. Valið sónvarpsefni verður svo eingöngu aðgengilegt í gegnum SÝN+.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir í tilkynningu að Sýn gegni lykilhlutverki í íslensku samfélagi sem vettvangur frétta, íþrótta og menningarlegrar upplifunar.
„Á síðasta ári ákváðum við að bjóða sjónvarpsfréttir Sýnar án endurgjalds til landsmanna. Nú göngum við skrefinu lengra og gerum alla dagskrá línulegu sjónvarpsstöðvarinnar SÝN aðgengilega án endurgjalds, í fyrsta skipti í sögu stöðvarinnar.“