Þetta er mat tveggja norskra sérfræðinga sem ræddu við Dagbladet um þróun mála að undanförnu.
„Það er eini möguleiki Donald Trump í stöðunni til að komast óskaddaður frá þessu. Ég held að hann viti að Pútín hafi platað hann og að hann hafi málað sig út í horn sem erfitt er að komast út úr. Nú er bara að skipuleggja hvernig á að draga sig út úr ferli sem hann (Trump, innsk. blaðamanns) skildi greinilega ekki mikið í,“ sagði Sverre Diesen, fyrrum yfirmaður norska hersins.
Þrátt fyrir að Trump hafi fundað nokkrum sinnum með Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, og rætt nokkrum sinnum við Pútín í síma, hefur ekki þokast neitt í áttina að friðarsamningi á milli ríkjanna. Þvert á móti hafa árásir þeirra á hvort annað færst í aukana að undanförnu.
Trump hefur einnig sáð efasemdum um friðarferlið að undanförnu með ummælum sínum: „Ég veit ekki hver fjandinn kom fyrir Pútín. Hann er orðinn algjörlega klikkaður,“ sagði hann í maí eftir nýjar og harðar árásir Rússa á Úkraínu.
Arne Bård Dalhuag, hershöfðingi á eftirlaunum, sagði að Trump hafi áttað sig á að hann muni ekki geta komið á friði og vilji nú draga sig út úr þessu á sem minnst vandræðalegan hátt.