Eftir að hafa hrakið Úkraínumenn frá Kharkiv hafa Rússar haldið hluta af 50.000 manna herliði sínu í héraðinu. Þeir hafa einnig flutt sumar af úrvalssveitum sínum þangað.
Sérfræðingar hafa lengi reiknað með að Rússar myndu hefja stórsókn á allri víglínunni eða hluta hennar en hún hefur ekki enn hafist að fullu að mati sérfræðinga.
Talið er að Rússar hafi „fjögurra mánaða glugga“ til að brjótast í gegnum varnarlínur Úkraínumanna áður en veðrið breytist og gerir þeim fáu rússnesku skriðdrekum, sem eru eftir, ókleift að athafna sig.
Ekki er talið útilokað að Rússar séu að undirbúa stórsókn nærri landamærum Kharkiv og Sumy. Þeir gætu hugsanlega ráðist beint á aðra hvora borgina en það verður allt annað en auðvelt því þær eru báðar mjög vel varðar. Þeir gætu líka ætlað að reyna að ná svæðum nærri borgunum á sitt vald. Þeir náðu þeim fljótlega eftir að stríðið hófst en Úkraínumenn hröktu þá þaðan haustið 2022.
Kharkiv er næst stærsta borg Úkraínu en þar bjó um ein milljón manna fyrir stríð. Hún er aðeins um 35 kílómetra frá rússnesku landamærunum.
Hún er almennt talin vera „virki“ og stóð af sér sókn Rússa á fyrstu mánuðum stríðsins.