Musk sótti nýlega ráðstefnu um efnahagsmál í Katar og þar sagði hann að í framtíðinni muni hann nota miklu minni peninga í stjórnmál. Þegar hann var spurður af hverju, svaraði hann um hæl: „Mér finnst ég hafa gert nóg.“
Hann studdi kosningabaráttu Trump með 290 milljónum dollara. Þetta skilaði honum ráðgjafastöðu í stjórn Trump þar sem Musk stýrði DOGE niðurskurðarsveitinni sem sá um niðurskurð í starfsemi hins opinbera.
Eftir það var hann oft við hlið Trump á fréttamannafundum í Hvíta húsinu og um borð í Air Force One.
En Musk hefur átt á brattann að sækja hvað varðar vinsældir hans meðal almennings sem hafa hrapað vegna starfa hans fyrir Trump. Hlutabréf í Tesla, sem hann er aðaleigandi að og forstjóri, hafa hrapað í verði og salan á bílum hefur dregist mikið saman.
Á síðustu tveimur mánuðum hefur farið sífellt minna fyrir honum á samfélagsmiðlum Trump og hann hefur sést sjaldnar með forsetanum.
Ástæðan fyrir brotthvarfi hans er kannski að hann vilji bjarga Tesla með því en kannski er hún mun flóknari og úthugsaðri en það.
Óvinsæll stjórnmálamaður en duglegur kaupsýslumaður
Í kjölfar embættistöku Trump í janúar nefndi hann Musk oft í færslum sínum á samfélagsmiðlum en í lok mars hætti hann skyndilega að nefna Musk í færslum sínum.
Musk sagði svo í apríl að hann ætlaði að eyða minni tíma í störf fyrir Trump og meiri tíma í fyrirtækin sín.
Hann fór þó með Trump til Miðausturlanda í síðustu viku en ástæðan fyrir því er líklega að hann var að sinna eigin hagsmunum með því enda kom hann heim með fjölda samninga fyrir SpaceX, sem hann á.
Störf hans fyrir DOGE voru mjög óvinsæl meðal bandarísku þjóðarinnar og vinsældir Musk hafa mælst sífellt minni eftir því sem hefur liðið á árið.
En Musk getur líklega verið sáttur við afraksturinn af starfinu fyrir Trump. Í samantekt Washington Post kemur fram að í gegnum tíðina hafi fyrirtæki Musk fengið opinberan stuðning fyrir 38 milljarða dollara og eigi von á 11,8 milljörðum til viðbótar á næstu fimm árum.
Það eru einmitt útgjöld af þessu tagi sem Musk reyndi að skera niður í gegnum DOGE en samningar fyrirtækja hans við bandaríska ríkið virðast sleppa algjörlega við niðurskurð.
Gagnrýnendur hafa bent á að Musk hafi notað áhrif sín til að beina nýjum opinberum verkefnum til fyrirtækja sinna. Þetta á til dæmis við um lagningu breiðbands og meiri einkavæðingu fjölda verkefna á svið geimferða og gervihnatta.
NBC News segir að mörg þeirra mála, tengd viðskiptum fyrirtækja Musk, sem eftirlitsstofnanir hafa tekið til rannsókna, hafi verið lögð til hliðar eða jafnvel horfið algjörlega á síðustu mánuðum.
Trump hefur meðal annars rekið þann starfsmann landbúnaðarráðuneytisins, sem hafði unnið að rannsókn á málefnum Neuralink, sem Musk á, dómsmálaráðuneytið hefur fellt niður mál gegn SpaceX og hætt hefur verið við rannsókn á réttindum starfsmanna Tesla.
Þess utan hefur ekki verið nein hreyfing á rúmlega 40 rannsóknum, tengdum fyrirtækjum Musk, mánuðum saman.