Þrettán ára stúlka í Kaliforníu varð fyrir árás fullorðins karlmanns á leiðinni heim úr skóla en náði að verja sig með jiu-jitsu brögðum. Lögreglan leitar mannsins sem stúlkan ökklabraut.
Tímaritið People greinir frá þessu.
Lögreglan í borginni Carmel, nokkuð sunnan við San Francisco, leitar nú árásarmanns sem réðist á þrettán ára stúlku þegar hún var á leið heim úr skólanum. Árásin fór þó ekki alveg eins og hann ætlaði.
Maðurinn faldi sig á milli tveggja bíla og sat fyrir stúlkunni. Þegar hún kom nálægt stökk hann fram og kýldi hana í andlitið.
Það sem maðurinn hafði ekki gert ráð fyrir var að stúlkan hafði æft jiu-jitsu í þrjú ár í ungmennafélagi Carmel borgar. Það er hjá kennara að nafni Michael Blackburn. Hún notaði brögðin sem Michael kenndi henni eins og hann greindi frá í viðtali um málið.
„Hún kýldi hann, hún náði honum í hálstak, sparkaði með hnénu í hann í tvö skipti, sneri honum í hring og fleygði honum í jörðina,“ sagði Blackburn. „Á meðan hún gerði allt þetta þá steig hún á fótinn á honum, þannig að þegar hún fleygði honum í jörðina ökklabraut hún hann.“
Þrátt fyrir að hafa farið svona illa með manninn þá þorði hún ekki annað en að flýja heim til sín. Gat hún því ekki látið vita af þessu fyrr en hún var komin í örugga fjarlægð og því náði hann að flýja af vettvangi.
Náði hún að gefa lögreglunni lýsingu af manninum sem teiknuð var mynd eftir. Hún sagði hann hafa verið um 6 fet á hæð (180 sentimetrar), nokkuð vöðvamikill og nú með mikil meiðsli á ökkla.
„Við erum að gera allt sem við getum til þess að finna þennan mann sem er ábyrgur fyrir því sem gerðist,“ sagði Todd Trayer, lögreglustjóri á staðnum. Segist hann ekki útiloka að viðkomandi hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar árásin átti sér stað.
Kennarinn Blackburn sagðist harma það að nemandi sinn hafi lent í þeim aðstæðum að þurfa að beita sjálfsvörninni til að bjarga sér. En hann sagðist vera stoltur af því hvernig hún brást við.
„Hún gerði nákvæmlega það sem hún átti að gera,“ sagði hann. „Í tíma verður þú að berjast eins og þú sért að verjast úti á götu.“
Nefndi hann einnig að fólk getur bjargað lífi sínu með því að kunna fangbrögð í sjálfsvarnaríþrótt.
„Ef foreldri getur komið barni sínu á æfingar, jafn vel þó það séu aðeins helgaræfingar, til að læra eitthvað þá er það svo gagnlegt af því að það er svo margt ógnvænlegt þarna úti í dag.“