Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir í aðsendri grein á Vísi í morgun að í öllum tilfellum hafi misbrestir eða brot viðkomandi starfsmanns verið staðfest af dómstólum. Reglur um starfslok komu engu að síður í veg fyrir lögmæta uppsögn og hinu opinbera gert að greiða skaðabætur.
„Þar má finna afgreiðslumann í Vínbúðinni sem lagði samstarfsfólk sitt í einelti í tvígang, lögmann hjá Umboðsmanni skuldara sem fletti upp trúnaðargögnum um fyrrverandi maka í þrígang, starfsmann á sorpeyðingarstöð sem hengdi upp nektarplaköt gegn beiðnum, sýndi óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfsfólki og vísaði viðskiptavinum frá að ósekju, strætóbílstjóra sem stytti sér leið og ók einungis helming leiðarinnar sem honum bar að aka, og sérfræðingi hjá Hagstofunni sem fletti upp launum samstarfsfólks í gagnagrunni sem hann fékk aðgang að fyrir hagtölugerð,“ segir Björn í grein sinni en smásögurnar má lesa í heild sinni hér.
Viðskiptaráð birti á dögunum úttekt á uppsagnarvernd opinberra starfsmanna en þar kom fram að opinberir starfsmenn njóti ríkari uppsagnarverndar en starfsfólk í einkageiranum.
„Þessi umframvernd veldur því að „svartir sauðir“ sitja áfram í störfum sínum þrátt fyrir misbresti eða brot gegn starfsskyldum. Það hefur neikvæðar afleiðingar fyrir samstarfsfólk og þá sem reiða sig á opinbera þjónustu,“ segir Björn í grein sinni.
Hann segir að viðbrögðin við úttektinni hafi ekki látið á sér standa, margir hafi fagnað henni og tekið undir tillögur um afnám umframverndunarinnar en einnig hafi komið fram gagnrýni, til dæmis frá formanni BSRB.
„BSRB segir að ekkert hindri stjórnendur hjá hinu opinbera við að segja upp starfsfólki sé þess þörf, þeir nýti einfaldlega ekki þau verkfæri sem þeim standa til boða. En stjórnendurnir sjálfir segja annað. Í úttektinni kemur fram að í könnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana töldu 81% þeirra sem tóku afstöðu að framkvæmd áminninga og uppsagna væri flókin og því sé erfitt að beita þeim,“ segir Björn.
Hann segir svo að lokum í grein sinni að það séu sameiginlegir hagsmunir allra að hið opinbera geti tekið á málum eins og talin eru upp hér að framan.
„Það á sérstaklega við um þann yfirgnæfandi meirihluta opinberra starfsmanna sem sinna störfum sínum af heilindum og alúð. Þeir eiga skilið heilbrigt starfsumhverfi þar sem „svartir sauðir“ skemma ekki fyrir. Og það á ekki síður við um þá sem reiða sig á hið opinbera og fengju meiri og betri þjónustu fyrir vikið.”
Björn segir ánægjulegt að bæði Ríkisendurskoðun og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar tali fyrir endurskoðun þessarar uppsagnarverndar.
„Það rímar vel við vilja almennings; af 10.000 þátttakendum í kosningaprófi Viðskiptaráðs voru 70% fylgjandi því að draga úr uppsagnarvernd opinberra starfsmanna, 12% voru á móti. Vonandi lætur ríkisstjórnin kné fylgja kviði og færir þessi lagaákvæði í nútímalegt horf.“