Vopnið er eiginlega eins og tekið út úr tölvuleik sem snýst um dapra framtíðarsýn. Þetta er dróni sem flytur aðra dróna innanborðs og sleppir þeim síðan yfir vígvellinum eða varnarlínum óvinarins.
Að sögn úkraínskra hermanna láta Rússar þessa „móðurskipsdróna“ fljúga að varnarlínum þeirra þar sem þeir sleppa litlu drónunum sem er síðan stýrt með gervigreind. Það þarf því ekki eins mikil afskipti „flugstjóra“ sem stýrir drónanum úr stjórnstöð fjarri vígvellinum og með hefðbundna dróna.
Drónar hafa gjörbreytt stríðsrekstrinum og stækkað það svæði sem er hættulegt að vera á. Áður var talið að hættusvæðið næði 5-8 kílómetra frá fremstu víglínu en nú telja Úkraínumenn það ná 15 kílómetra frá víglínunni.
Úkraínumenn vinna að smíði „móðurskipsdróna“ og Kínverjar einnig. Það er því ljóst að slíkir drónar munu skipta miklu máli á vígvöllum í framtíðinni.