Pútín vantar fólk til að efla rússneskt efnahagslíf þar sem er mikill skortur á starfsfólki í lægst launuðu störfin, til dæmis í byggingariðnaðinum, við akstur strætisvagna og sem sendla.
Hann vantar líka fólk til að halda á vopnum í fremstu víglínu í Úkraínu.
Það er einmitt í þessu samhengi sem Pútín glímir við valkreppu og það gerir Rússland í heild sinni einnig. Staðan er einfaldlega sú að það er ekki nóg af innfæddum Rússum til að mæta þessari mannaflaþörf og alls ekki í ljósi þess hvernig lýðfræðileg þróun hefur verið í Rússlandi á síðustu árum.
Pútín hefur því neyðst til að taka við fólki frá hinum svokölluðu ”Stan”-löndum í Mið-Asíu. Þetta eru lönd á borð við Úsbekistan, Kasakstan, Kirgisistan og Tadjíkistan.
En þetta þýðir um leið að Pútín getur ekki haldið fast í mjög þrönga og þjóðernissinnaða innflytjendastefnu sína en öfgaþjóðernissinnar hafa verið öflugir talsmenn hennar. Það eru þessar sömu raddir sem eru áköfustu stuðningsmenn stríðsins í Úkraínu.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW) um rússneska herinn.
Í samtali við TV2 sagðist Flemming Splidsboel, sérfræðingur hjá Dansk Institut for International Studier (DIIS), vera þessu sammála en hann fylgist náið með þróun mála í Rússlandi.
Splidsboel sagði að þetta sé vandi, sem Pútín hafa enga lausn á núna. Það eina sem sé hægt að gera, sé að taka á móti innflytjendum því það sé þörf fyrir þá, það sé enginn valkostur.
Hann sagði að hörðustu andstæðingar innflytjenda í Rússlandi séu harðir þjóðernissinnar sem leggja áherslu á rússneskan uppruna, rússnesku, hefðbundin gildi og rússnesku kirkjuna. Þeir telja að Úkraína hafi sett sig upp á móti Rússlandi og þess vegna sé innrásin lögmæt. „Sumir þeirra myndu ganga svo langt að segja að Úkraínumenn séu bara Rússar, sem hafa gleymt að vera Rússar,“ sagði Splidsboel.