Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari, segist hafa séð tölur um það að á árunum 2008 til 2012 hafi um 890 beiðnir verið sendar til dómstólanna um símhleranir.
„Það var fallist á 99,7 prósent af þeim. Það er náttúrulega bara ótrúlegt. Það er bara alveg skuggalegt sko. Því að menn verða að athuga það að þegar beðið er um símhlustun, þá er ekki hægt að gera sakborningnum grein fyrir því og ekki heldur verjandanum vegna þess að það eyðileggur rannsóknaraðgerðina. Og þess vegna gátu menn bara farið fram sem þeir vildu,“
segir Jón Steinar í viðtali í Spjallið með Frosta Logasyni.
Segir hann að svo undarlegt sem það virðist hafi einn héraðsdómstóll verið „fúsari til þess að veita þessar heimildir og með minna svona mögli heldur en aðrir. Og það var Héraðsdómur Vesturlands.
Og hver ætli hafi setið þar í dómaraembætti? Sá maður er núna forseti Hæstaréttar Íslands. Hann samþykkti allar beiðnir. Og það var nú meðal annars eitt mál þar sem var verið að sleppa sakborningi úr gæsluvarðhaldi. Þegar maður sér fyrir sér þegar þeir voru að tala saman lögreglan: Eigum við ekki bara sleppa honum og hann hefur neitað að svara hérna, og svo fáum við að hlera símann? Það gerðist og Benedikt Bogason veitti þá heimild.“
Jón Steinar bendir á yngri dóm, „þá vissu þeir ekki af því að forseti réttarins hafði staðið að þessu fyrir mörgum árum, það kom fram í yngri dómi að ef að hleraður væri sími hjá manni sem hefði sem sakborningur verið bent á réttinn til þess að svara ekki spurningum, þá væri það brot á mannréttindum mannsins. Og þetta var forsendur í dómi og alveg skýr. Auðvitað er það skýrt að það er ekki hægt að byrja á því að benda manninum á það að hann þurfi ekki að svara spurningum og fara svo að hlera það sem hann segir í símann.“
Jón Steinar starfaði lengst af sem hæstaréttarlögmaður, en hann var einnig prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur. Hann var skipaður hæstaréttardómari 29. september 2004 og lét af störfum 1. október 2012.
Jón Steinar talar jafnframt um eftirmála hrunsins og þá ábyrgð sem bankamenn voru látnir sæta. Hann segir að eftir hrunið hafi ákvæði verið breytt í almennum hegningarlögum til þess að geta sakfellt bankamenn sem voru sakaðir um að eiga sök á hruninu.
„Og þetta er brot sem er í auðgunarkafla almennra hegningarlaga. Þar er skilyrði fyrir öllum brotum að það sé sannaður auðgunartilgangur á þann sem brýtur af sér. Eitt brotið heitir umboðssvik. Það felst í því að hafa tekið fé sem að maður hefur umboð fyrir að ráðstafa eins og til dæmis bankastjóri með fé bankans, og maður leggur það undir sig eða fær einhverjum öðrum það og það er ásetningur fyrir það að hafa þetta fé af bankanum og taka það sjálfur eða láta einhvern annan fá það. Þeir breyttu þessu ákvæði sem er náttúrulega alveg fráleitt í bankahruninu og töldu það nóg til að sakfella menn fyrir umboðssvik ef að það hefði verið hætta á því að féð tapaðist við einhverjar aðgerðir þeirra. Þetta er auðvitað alveg, þetta er refsiákvæði, þetta er algjörlega óheimilt samanber upptalninguna mína á því hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi. En það voru fjöldi manna sem voru dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir það að hafa gerst sekir um umboðsvik sem að byggðust bara á því að þeir hefðu tekið áhættu með fé bankans. Auðvitað eru menn alltaf í öllum rekstri þá eru menn að taka áhættu og meira að segja í lögum, og meira að segja í lögum um bókhald. Þá var sérstakt ákvæði um það að það væri eða gæti verið refsivert að hætta fé fyrirtækisins sem starfað væri á. En þegar tekið var til við að höfða mál á hendur bankamönnum, þá hafa þeir ekki getað notað það ákvæði þó að það gæti hafa átt við.“
Jón Steinar segir það hafa verið vegna þess að brotin sem lögð voru við þeim í þessum lögum voru fyrnd. Þau fyrnast á tveimur árum en brotin á almennum hegningarlögum fyrnast á sex árum.
„Og það skyldi þó ekki hafa verið ástæðan fyrir því að það var ákært fyrir brot á almennum hegningarlögum þó að þau stæðu alls ekki til þess. Þetta skyldi þó ekki hafa verið ástæðan. En það þýðir ekkert fyrir mig að tala um þetta. Hver tekur undir með mér? Þessi lögmannastétt og lögfræðingastétt í landinu er alveg liðónýt.“