Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir að kostir við Schengen-aðild séu meiri en gallarnir. Í pistli á bloggsíðu sinni andmælir hann ýmsu í viðtali Spursmála Morgumblaðsins við Úlfar Lúðvíksson, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, í gær.
Úlfar segist hafa verið rekinn úr starfi en þannig túlkar hann ákvörðun Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra, að auglýsa stöðuna, í ljósi þess að breytingar eru að verða á embættinu. Úlfar segir landamæravörslu á innri landamærum Íslands vera í molum og varpar hann sökinni á ástandinu á Hauk Guðmundsson, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra. Vill hann að þeim verði báðum vikið úr starfi.
Björn segir í pistli sínum að ákvörðun dómsmálaráðherra, að auglýsa stöðuna, hafi verið málefnaleg.
„Dómsmálaráðherra sagði á alþingi 19. maí að veruleg breyting, veruleg stækkun embættis í þessu tilviki, kallaði á auglýsingu. Hún hefði gert viðkomandi embættismanni ljóst að heimild væri í lögum til að flytja hann í annað embætti, vildi hann ekki sækja um stöðuna aftur. Það gætu allir sótt um þessa stöðu sem á henni hefðu áhuga. Ríkisstjórnin væri í stuttu máli að styrkja lögregluna á Suðurnesjum og landamæraeftirlit verulega með fleiri stoðum, með fleiri störfum og með sterkari lögum. Þetta væri pólitísk hlið málsins sem ráðið hefði ákvörðun sinni.
Verður ekki dregið í efa að hér sé um fullgild efnisleg rök að ræða sem ráðist af pólitísku mati ráðherrans.“
Björn forðast jafnan stóryrði í skrifum sínum en hann virðist telja að Úlfar eigi að lífa í eigin barm varðandi slæmt ástand landamæravörslu:
„Hér hefur árum saman verið tekið til varna fyrir Schengen-aðildina og bent á að gagnrýni á hana breyti engu um brotalamir í landamæragæslu hér, hún sé alfarið mál íslenskra yfirvalda. Er verulegt áhyggjuefni að Úlfar Lúðvíksson segi þessa gæslu í molum eftir að hann hefur stjórnað framkvæmd hennar á Keflavíkurflugvelli í fimm ár.“
Björn segir ennfremur:
„Að Úlfar Lúðvíksson skelli skuld á Hauk Guðmundsson, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og krefjist brottvikningar þeirra í nafni þjóðaröryggis stenst ekki þau skilyrði sem krafist er ákveði ráðherra að auglýsa stöðu í samræmi við lagaheimildir.“