Netöryggisfyrirtækið Syndis hefur gengið frá kaupum á ráðgjafarfyrirtækinu Ísskógum. Með kaupunum eykur Syndis þar með við getu sína á sviði upplýsingaöryggis, með sérstakri áherslu á ráðgjöf og innleiðingu stjórnkerfa upplýsingaöryggis (ISMS).
Ísskógar var stofnað árið 2018 af Oddi Hafsteinssyni en hann hefur starfað við upplýsingatækni í 25 ár. Ísskógar hefur aðstoðað við mat, innleiðingu, framkvæmd og eftirlit með upplýsingaöryggismálum fyrirtækja og stofnana.
Með kaupunum mun Syndis geta boðið núverandi viðskiptavinum Ísskóga breiðara þjónustuframboð og dýpri sérhæfingu á sviði upplýsingatækni og áhættustýringar til samræmis við alþjóðlega staðla eins og ISO27001.
„Við fögnum því að Oddur Hafsteinsson hafi gengið til liðs við okkur. Oddur kemur með mikla reynslu úr bæði opinbera- og einkageiranum og bætir við okkar öfluga hóp sérfræðinga í upplýsingaöryggi,“ segir Anton Már Egilsson, forstjóri Syndis í fréttatilkynningu.
Sameiningin markar skref í þeirri stefnu Syndis að byggja upp heildstæða þjónustu á sviði öryggismála, þar sem bæði sóknar- og varnarþekking eru tekin saman í eina sterka heild. Með tilkomu Ísskóga styrkir Syndis þá stoð sem snýr að langtímaöryggi og mótun stefnu í samræmi við kröfur, lög og reglur.