fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Fréttir

Segir margt kunnuglegt í áróðri SFS og minnir á hvernig fór fyrir Seyðisfirði – „Þetta er beinlínis siðlaus framsetning.“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 2. maí 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það ber að fagna rándýrri auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í henni opinberast hversu aftengd fáveldisstéttin í sjávarútvegi er orðin raunveruleikanum og samfélaginu sem bjó hana til,“ skrifar Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, á vefsíðu sinni þar sem hann fjallar um auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem vakið hefur mikið umtal.

Þórður bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hagsmunasamtök útgerðarinnar fara í áróðursherferð til að berjast gegn tilraunum ríkisstjórnarinnar til að fá sanngjarnara endurgjald fyrir auðlind þjóðarinnar. Sömu aðferð var beitt árið 2012 í tilefni frumvarpa um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Útgerðin þurfi þó að bíta í það súra epli nú að þjóðin lætur ekki gabbast og að í stjórnarráðinu sitji ríkisstjórn sem er tilbúin að standa í lappirnar gegn stórútgerðinni sem neitar að sætta sig við aðeins minni gróða í þágu samfélagsins.

„Vegna þessa hefur skrattinn verið málaður á vegginn. Sett upp leiksýningum harmleik sem gefur til kynna að ef þessi frumvörp nái fram að ganga muni grundvallaratvinnuvegur lepja dauðann úr skel, sveitarfélög leggjast af og nýsköpun stöðvast“

Hvernig fór fyrir Seyðisfirði?

Þórður bendir á að þessi herferð hafi til þessa líklega kostað á annað hundrað milljónir. Þessar auglýsingar séu kunnuglegar enda megi þar finna sömu þemu og útgerðin notaði árið 2012. Þórður segir að landsmenn ættu að þekkja manninn sem var á bak við herferðina 2012.  Hann er í dag varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Jens Garðar Helgason.

„Í viðtali við Fréttablaðið á þessum tíma sagði Adolf Guðmundsson, þáverandi formaður LÍU (SFS áður en það fór í gegnum ímynda- og andlitslyftingu) að nauðsynlegt hefði verið að fara í þessa herferð vegna þess að allt sem stjórnvöld væru að gera væri á misskilningi byggt. Þáverandi útfærsla á gríðarlegu skattspori greinarinnar var tíunduð, talað um samráðsleysi og ítrekað að áhrifin á önnur fyrirtæki í kringum sjávarútveg og byggðarlög yrðu katastrófa ef frumvörpin yrðu að lögum. „Auglýsingar eru einfaldlega nauðsynlegar. Við höfum ekki aðgang að fjölmiðlum eins og ríkisstjórnin sem á auðveldara með að koma sínum sjónarmiðum að.““

Adolf þessi steig fram í auglýsingum og fjallaði um byggðina sína, Seyðisfjörð, en þar var hann að reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hann talaði fallega um reksturinn sem hann sagði ekki miða að því að fylla vasa hluthafa heldur vera samfélagslegan. En hvað gerðist svo eftir þessa áróðursherferð?

„Um tveimur árum síðar höfðu Adolf og aðrir hluthafar, sem voru alls 14 talsins, selt sína útgerð, Gullberg á Seyðisfirði, til Síldarvinnslunnar. Kaupverðið var trúnaðarmál en miðað við þann kvóta sem útgerðin hélt á, og algengt verð á þorskígildistonnum á þeim tíma sem salan fór fram, þá er ljóst að það hljóp á milljörðum króna. Tilkynnt var um það samhliða að staðinn yrði vörður um starfsemina á staðnum þótt félagið yrði selt.

Árið 2023 tilkynnti Síldarvinnslan, sem þegar hafði flutt kvótann annað, að vinnslu á Seyðisfirði yrði hætt, þótt þeirri ákvörðun hafi verið frestað nokkrum sinnum og vinnslan sé enn starfandi í dag. Samhliða hefur innreið laxeldis í Seyðisfjörð verið kynnt sem eina mögulega lausnin til þess að halda byggðinni við. Sá sem leiddi þá innreið fyrir fyrirtækið Kaldvík var aðstoðarforstjóri þess, Jens Garðar Helgason.“

Íslendingar sjá í gegnum áróðurinn

SFS hafi nú í auglýsingum sínum teflt fram samfélögum á Eskifirði, Grundarfirði og Dalvík – samfélög sem eigi allt sitt undir útgerðinni og megi ekki við hækkun veiðigjalda. Þórður segir kaldhæðnislegt að SFS minnist í engu á þau fjölmörgu samfélög sem þegar hafa verið lögð í rúst, ekki af hækkun veiðigjalda,  heldur vegna samþjöppunar í kvótakerfinu.

„Þetta er beinlínis siðlaus framsetning í ljósi þess að kvótakerfið hefur, með þeirri samþjöppun sem henni hefur fylgt, lagt fjölmörg bæjarfélög sem byggðust upp í kringum sjávarútveg í rúst. Ég tel að minnsta kosti 28 slík, sem urðu fyrir því að kippt væri undan þeim tilverugrundvellinum þegar útgerðarmenn sem héldu á kvóta ákváðu að selja hann annað. Það var gert með því að kaupa upp útgerðir, oft með bankalánum með veði í öðrum kvóta, og færa starfsemi þeirra í heilu lagi annað.“

Þórður fagnar því að margir landsmenn ætli ekki að kaupa þennan málflutning. Færslur gangi nú um í netheimum þar sem bent er á þær byggðir sem útgerðin hefur sjálf rústað. Ein slík er færsla sem kallast: Hin hliðin.

„Mig langar til að sýna þér þorpið okkar.
Þarna var bakaríið okkar
Þarna var vélsmiðjan okkar
Þarna var trésmíðaverkstæðið okkar
Þarna voru verzlanirnar okkar
Þarna var fiskvinnslan okkar
Þarna var frystihúsið okkar
Þarna voru bátarnir okkar
en ekki núna
Grundvöllur lífsins var sjávarútvegur, veiðar og vinnsla
en ekki núna.
Maðurinn sem átti kvótann er farinn
Fjörðurinn er fullur af fiski
en við megum ekki veiða, við eigum ekki fiskinn.
Í firðinum OKKAR.“

Þórður segir að fyrirhugaðar breytingar séu engin ógn fyrir litlar og meðalstórar útgerðir, en til móts við þær verður komið með frítekjumarki. Þessum útgerðum sé þó teflt fram í áróðursherferðinni. Hvers vegna? Jú til að fela það að í raun sé SFS að reyna að verja stórútgerðina, fjölskyldufyrirtæki sem sitji á stærsta hluta kvótans, frá þeim hræðilega raunveruleika að þurfa að græða aðeins minna á þjóðarauðlindinni. Á sama tíma sýni kannanir að landsmenn séu þeirrar skoðunar að útgerðin megi vel við þessari hækkun og geti vel greitt meira til samneyslunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Siggi stormur veltir fyrir sér verðyfirlýsingum Bónus – „Einu sinni var talað um „hækkun í hafi““

Siggi stormur veltir fyrir sér verðyfirlýsingum Bónus – „Einu sinni var talað um „hækkun í hafi““
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Langt bataferli framundan hjá Maríu Sigrúnu

Langt bataferli framundan hjá Maríu Sigrúnu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum
Syndis kaupir Ísskóga
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Rússneskur herforingi rekinn og fangelsaður eftir að hafa gagnrýnt Pútín

Rússneskur herforingi rekinn og fangelsaður eftir að hafa gagnrýnt Pútín
Fréttir
Í gær

Stefán Blackburn og Gabriel Douane í blóðugum slagsmálum á Litla-Hrauni – Fangaverðir treystu sér ekki til að stíga inn í átökin

Stefán Blackburn og Gabriel Douane í blóðugum slagsmálum á Litla-Hrauni – Fangaverðir treystu sér ekki til að stíga inn í átökin
Fréttir
Í gær

Segir að þýski risinn á Kefavíkurflugvelli sé að veita íslenskum framleiðslufyrirtækjum rothögg í trássi við skilmála útboðs – „Reksturinn stórskaðast“

Segir að þýski risinn á Kefavíkurflugvelli sé að veita íslenskum framleiðslufyrirtækjum rothögg í trássi við skilmála útboðs – „Reksturinn stórskaðast“
Fréttir
Í gær

Einn handtekinn í miðbænum eftir að sérsveitin var kölluð út

Einn handtekinn í miðbænum eftir að sérsveitin var kölluð út