Hinn 27 ára gamli Hadi Matar hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi af dómstóli í New York fyrir hættulega hnífaárás á rithöfundinn Salman Rushdie. Árásin átti sér stað í ágúst 2022 þegar Rushdie var uppi á sviði í miðjum fyrirlestri í stórborginni.
Sjá einnig: Salman Rushdie stunginn ítrekað
Matar ruddist upp á sviðið og réðst fyrirvaralaust á Rushdie og stakk hníf ítrekað í andlit og háls rithöfundarins. Rushdie var heppinn að lifa árásina af en hann missti annað auga sitt auk þess sem hann varð fyrir margvíslegum öðrum meiðslum.
Árásin átti sér stað 35 árum eftir að umdeild bók Rushdie, Söngvar Satans, kom út en bókin olli miklum usla meðal múslima og var Rushdie meðal annars lýstur réttdræpur af æðsta klerk Írans, Ruholla Khomeini, árið 1989.