Álfheiður Ingadóttir fyrrum þingmaður og ráðherra Vinstri grænna lýsir yfir mikilli óánægju með þá niðurstöðu meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að neita núverandi eigendum húss á Fjólugötu, sem er í miðborginni, um leyfi til að gera bílastæði á lóðinni en húsið er það eina í götunni sem er ekki með bílastæði á lóðinni. Álfheiður bjó lengi í húsinu en flutti nýlega úr því. Flokkur Álfheiðar á aðild að meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn en er þó aðeins með áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði.
Álfheiður fjallar um málið á Facebook undir yfirskriftinni:
„FYRIRSLÁTTUR, MEINBÆGNI og MISMUNUN!“
Það að Álfheiður hafi yfirskriftina með stórum stöfum gefur til kynna að henni sé töluvert niðri fyrir. Hún vísar í frétt Morgunblaðsins, sem hún kallar blað allra landsmanna, í dag af synjun ráðsins og rifjar upp hvers vegna var ekki farið fram á þetta leyfi þegar hún og maður hennar fluttu í húsið fyrir um 40 árum:
„Þegar ég flutti í þetta fallega hús 1983 var umferðin í Reykjavík minni og sjaldgæfara að tveir bílar væru á heimili, hvað þá fleiri.“
Álfheiður segir hins vegar að með tímanum hafi þetta breyst og væri hún að flytja inn í húsið í dag myndi hún svo sannarlega óska eftir bílastæði á lóðinni:
„Ástæðan er ekki aðeins Kvennaskólanemar sem nú koma flestir á bíl í skólann, heldur hefur borgin sett gjaldskyldu allt í kringum þessa litlu íbúðagötu, þannig að íbúar nærliggjandi gatna freistast til að leggja á gjaldfrjálsu svæði, og jafnvel geyma bílana þar þegar þeir fara í frí.“
Álfheiður segir að síðustu árin sem hún bjó í húsinu hafi hún þurft að standa í töluverðu stappi út af bílastæðamálum:
„Síðustu ár stóð ég ásamt öðrum íbúum við Fjólugötu og Sóleyjargötu því í óþolandi stappi við þessa nágranna okkar en líka við bílstjóra á merktum sendibílum sem geymdu fyrirtækjabílana á kvöldiin og yfir helgar í Fjólugötu. Þeir sögðu svo sem satt: Það er ekkert sem bannar þeim að leggja þarna, en útkoman er að ef íbúar sem ekki eiga stæði, fara að heiman snemma morguns, þá fyllast stæðin um leið og eru teppt fram á kvöld og um helgar. Við óskuðum þess vegna eftir því að fá stöðumæla og íbúakort í Fjólugötu, en vorum ekki svo mikið sem virt svars af borgarinnar hálfu.“
Álfheiður sendir að lokum meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs, samstarfsflokka flokks hennar í meirihluta borgarstjórnar, tóninn:
„Skipulagsráð er ekki hátt skrifað þessa dagana hjá íbúum Reykjavíkur og ég skora á borgarráð og borgarstjórn að snúa þessari ákvörðun við. Það hafa verið heimiluð bílastæði inni á einkalóðum ALLRA annarra húsa við Fjólugötu! Og við flest hús Sóleyjargötumegin líka. Og til þess þarf að þvera gangstétt! … Þetta er því léleg afsökun, meinbægni og mismunun sem hlýtur að verða að breyta.“
Í umhverfis- og skipulagsráði var fyrri synjun skipulagsfulltrúa á ósk eiganda hússins um bílastæði á lóðinni synjað. Fulltúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins staðfestu synjunina en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru á móti.
Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna beiðninnar segir að ný stæði á lóðinni krefjist þess að nýjar innkeyrslur yrðu gerðar frá götu, almennt sé ekki tekið jákvætt í að gera ný bílastæði á lóð í gróinni byggð þar sem reynt sé eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að keyrt sé yfir gangstétt til að tryggja umferðaröryggi. Hvað varði sjónarmið um bílastæði við önnur hús í götunni segir í umsögninni að í einhverjum tilfellum geti verið um óleyfisframkvæmdir að ræða. Í öðrum tilfellum hafi verið samþykkt bílastæði á lóð. Innkeyrslur af þessum toga séu þó ekki taldar fordæmisgefandi fyrir því að heimila bílastæði með tilheyrandi raski á gangstétt við Fjólugötu.
Í bókun fulltrúa Framsóknar í umhverfis- og skipulagsráði segir að þetta séu ekki fullnægjandi rök. Tæplega sé hægt að vísa í venjur um að banna gerð bílastæða inn á einkalóð út frá þeim rökum að bílar þurfi að aka yfir gangstéttar til komast í eða úr stæðum. Það fyrirkomulag að bílar aki í og úr stæðum yfir skilgreindar gangstéttir fyrirfinnist um alla borg. Það virki handahófskennt að hafna beiðnini út frá þeim rökum.
Athygli vekur að með beiðinni fylgdi bréf frá sendiherra Slóveníu gagnvart Íslandi sem birt er með fundargerð fundar umhverfis- og skipulagsráðs en eigandi hússins er ræðismaður Slóveníu hér á landi og ræðismannskrifstofa landsins er í húsinu. Segir í bréfinu að nauðsynlegt sé að hafa bílastæði á lóðinni til að ræðismannskrifstofan geti gegnt hlutverki sínu og vísað er til Vínarsáttmálans í því samhengi.
Með fundargerðinni fylgir hins vegar einnig minnisblað frá lögfræðideild skrifstofu stjórnsýslu og gæða hjá borginni. Í minnisblaðinu segir að vissulega hafi Ísland sem aðildarríki skyldum að gegna gagnvart sendiskrifstofum erlendra ríkja hér á landi. Hins vegar er það niðurstaðan í minnisblaðinu að sáttmálanum hafi ekki verið ætlað að tryggja ákveðin réttindi eða forgang umfram landslög, t.d. umfram þau lög og skipulagsskilmála sem gildi í þéttbýli og um íbúa og gesti þar.