fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
Fréttir

Gamalt viðtal við njósnarann Jón Óttar vekur athygli eftir umfjöllun Kveiks

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 1. maí 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afbrotafræðingurinn og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaðurinn Jón Óttar Ólafsson er aftur kominn í umræðuna. Seinast vakti hann athygli fyrir störf sín fyrir Samherja. Meðal annars fyrir að hafa átt í tölvupóstsamskiptum við einn sex manna sem sátu í fangelsi í Namibíu vegna gruns um að þiggja mútur frá Samherja og fyrir að hafa áreitt fjölmiðlamanninn Helga Seljan mánuðum saman í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið svokallaða í nóvember 2019.

Að þessu sinni er það fyrir verkefni sem Jón Óttar tók að sér árið 2012, en Kveikur afhjúpaði á þriðjudaginn að auðmaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson fékk fyrirtæki sem Jón Óttar rak á þessum tíma, PPP sf., til að njósna um aðila sem tengdust hópmálsókn fyrrverandi hluthafa Landsbanka Íslands gegn honum.

Kveikur hefur undir höndum gífurlegt magn af gögnum sem fengust í stórum gagnaleka. Þar má meðal annars finna upptökur af njósnaaðgerðum, upptökur af fundum, vinnuskýrslur og margt fleira.

Málið hefur orðið til þess að gamalt viðtal við Jón Óttar var grafið upp og gengur nú manna á milli.

Sjá einnig: Björgólfur Thor sagður hafa borgað 33 milljónir fyrir njósnir gegn aðilum tengdum hópmálsókn gegn sér

Njósnafyrirtækið áður til umfjöllunar

Viðtalið birtist í Fréttablaðinu þann 13. september árið 2014, en viðtalið er eins aðgengilegt á vefsíðu Vísis. Þar ræddi Jón Óttar um kæru sérstaks saksóknara gegn honum út af meintum brotum gegn þagnarskyldu í starfi eftir að Jón Óttar og meðeigandi PPP sf. afhentu skiptastjóra Milestone rannsóknargögn um Milestone. Málið þótti þó ekki líklegt til sakfellis og var látið niður falla.

Jón Óttar fjallar um PPP sf. í viðtalinu, en PPP stendur fyrir Pars Per Pars. Jón Óttar útskýrði að eftir að hafa starfað í fullu starfi hjá embætti sérstaks saksóknara um nokkurt skeið hafi hann farið í 50 prósenta starf í nóvember 2011 og starfað í hálfu starfi á einkamarkaði sem sjálfstætt starfandi rannsakari undir merkjum PPP. Þetta hafi verið með fullri vitund og samþykki sérstaks saksóknara.

Hann viðurkenndi að eftir á að hyggja hafi verið óeðlilegt að vinna fyrir Milestone og sérstakan saksóknara á sama tíma en samkvæmt viðtalinu hafi hann ekkert brotið af sér. PPP skrifað á sig 577 vinnustundir fyrir milestone á 10 vikna tímabili og fengu PPP-félagar tæplega 23 milljónir fyrir skýrslu um gjaldfærni Milestone.

Kæra sérstaks saksóknara gegn honum hafi sett líf hans verulega úr skorðum.

„Þessi kæra til ríkissaksóknara gersamlega setti líf mitt á hliðina. Hún hafði gríðarleg áhrif á fjölskylduna og alla í kringum mig og ég var atvinnulaus mánuðum saman,“ sagði Jón Óttar.

Hefur ekki verið atvinnulaus lengi

Fjölmiðlar greindu frá því í maí 2012 að kæran hefði verið gefin út. Fullyrðing Jóns Óttars um atvinnuleysi í framhaldinu vekur því athygli eftir þátt Kveiks þar sem njósnirnar fyrir Björgólf fóru fram haustið 2012 og á upptökum af fundum sem Kveikur spilaði í þættinum kom fram að þetta var ekki eina verkefnið sem PPP var að sinna á þessum tíma.

Jón Óttar fjallar eins í viðtalinu um eftirlitsaðgerðir lögreglu. Hann hafi orðið þess snemma áskynja að sérstakur saksóknari hleraði símtöl verjenda við skjólstæðinga sína, sem væri óheimilt samkvæmt sakamálalögum.

„Hlustanirnar voru það sem maður varð mest var við. Þær eru gríðarlega íþyngjandi fyrir þá sem lenda í því. Rannsakarar komast þannig á snoðir um dýpstu leyndarmál einstaklinga.“

Eins vekur athygli að Jón Óttar harðneitar í viðtalinu að hafa nokkurn tímann þegið laun frá mönnum sem hafi haft réttarstöðu sakborninga hjá embætti sérstaks saksóknara.

Björgólfur Thor hafði árið 2011 haft ýmist réttarstöðu sakbornings eða vitnis í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara, sbr. ummæli þáverandi lögmanns hans í samtali við fjölmiðla árið 2011. „Hann var ýmist með réttarstöðu sakbornings eða vitnis. Þetta voru mörg mál en hann var ekki með réttarstöðu sakbornings í þeim öllum.“

Ófræginarherferð fyrir pro bono vinnu

Jón Óttar sagði líka, þegar hann ræddi um tilraunir sínar til að stöðva meintar ólögmætar hleranir sérstaks saksóknara, að þá hafi farið af stað ófrægingarherferð gegn honum.

„Menn fóru að dreifa sögum um það að ég væri að ljúga af því að ég fengi borgað fyrir þetta og ég væri bara á launum hjá þessum fyrrverandi bankamönnum, Hreiðari Má, Sigurði og fleirum.“

DV hafði nokkrum mánuðum áður en viðtalið kom út, í júní 2014, birt frétt þar sem fram kom að Jón Óttar hefði unnið fyrir Hreiðar Má Sigurðsson í Al-Thani málinu. Jón Óttar sagðist þó hafa gert það pro bono, eða án þess að fá greitt fyrir.

Í niðurlagi fréttar DV sagði: „Miðað við þessar staðreyndir liggur fyrir að Jón Óttar var og er heimildarmaður um starfsaðferðir héraðsdómara, nú hæstaréttardómara, í máli sem hann vann að sem lögreglumaður þegar hann starfaði hjá sérstökum saksóknara. Á grundvelli vitnisburðar þessa manns hefur Hreiðar Már nú kært dómarann, Benedikt Bogason, fyrir meint skjalafals. Fari svo að það mál komi til kasta dómstóla hlýtur Jón Óttar að verða kallaður fyrir sem vitni. Jón Óttar hefur því komið að málsmeðferð gegn Hreiðari Má hjá sérstökum saksóknara með að minnsta kosti tvenns konar hætti eftir að hann lét af störfum hjá embættinu. Í fyrsta lagi með því að skrifa greinargerð um rannsókn sérstaks saksóknara á Al-Thani-greinargerð sem hann sjálfur og lögmaður Hreiðars Más segja að hann hafi ekki fengið greitt fyrir – og í öðru lagi hefur hann vitnað um vinnubrögð Benedikts Bogasonar þegar hann veitti heimild til símahlerunar hjá Hreiðari Má árið 2010. Án slíks vitnisburðar heimildarmanns verður að teljast ólíklegt að Hreiðar Már hefði getað kært málið. Líkt og áður segir vill Jón Óttar ekki ræða þennan þátt málsins opinberlega.“

Næstu ár eftir viðtalið átti Jón Óttar eftir að bera reglulega vitni fyrir dómi í málum sem vörðuðu sérstakan saksóknara, þá oftast að beiðni verjenda sakborninga á borð við Hreiðar Má. Eftir að hann lét af störfum fyrir sérstakan saksóknara vænkaðist hagur hans líka hressilega. Í Sandkorni DV segir í október 2024:

„Umskipti Jóns Óttars hafa veirð ágætlega ábatasöm fyrir hann enda borgar ríkið sannarlega ekki best. Þegar Jón Óttar vann hjá sérstökum bjó hann í blokkaríbúð í Vesturbænum en nú býr hann í nýju 70 milljóna raðhúsi í Garðabænum.“

Nema það ólöglega auðvitað

Jón Óttar mætti svo líka í viðtal til Fréttablaðsins í desember árið 2013 í tilefni þess að hann gaf út spennusöguna Hlustað, sem Hallgrímur Helgason lýsti sem „eftirhrunsþriller af bestu sort“. Þar segir Jón Óttar að munurinn á milli löggu og bófa sé ekkert gríðarlegur. Þetta hafi hann lært snemma á ferli sínum.

„Það eru alveg afskaplega fáir gegnheilir skíthælar til. Langflestir eru bara svona skítsæmilegir og lenda í því að gera slæma hluti. Eitt af því sem ég er að reyna að gera í Hlustað er að sýna hvað gerist þegar maður fylgist svona lengi með sama manninum. Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman, hlustað símana þeirra og herbergin eins og löggurnar í bókinni gera. Þá fer maður að sjá mennina sem venjulegar manneskjur, það verður til nokkurs konar öfugt Stokkhólmssyndróm. Þótt maður sé í þeirri valdastöðu að vera að fylgjast með þeim án þess að þeir viti af því þá fer manni ósjálfrátt að líka vel við þá og nánast halda með þeim, ef maður passar sig ekki. Ég man sérstaklega eftir einum sem var alveg brjálæðislega góður við konuna sína og mömmu sína og þá fór maður ósjálfrátt að skilgreina hann út frá því en ekki brotinu sem hann var grunaður um. Þetta er tilfinningin sem maður þarf að læra að berja niður, en það eru alls konar svona skrítnir hlutir sem ég nota í bókinni sem ég hef ekki séð hjá öðrum höfundum. Það er ekkert í þessari bók sem ég hef ekki gert sjálfur í þeim málum sem ég hef rannsakað, nema það ólöglega auðvitað.“

Þar gagnrýndi Jón Óttar eins kæruna gegn sér, sem þá hafði verið felld niður og boðaði uppgjör í næstu bókum.

„Fólk myndi aldrei trúa því hversu langt opinberir aðilar eru tilbúnir að til að ganga til að ná fram því sem þeir vilja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögreglumaður leystur undan vinnuskyldu eftir fyrirspurn frá Kveik – Grunaður um persónunjósnir gegn greiðslu

Lögreglumaður leystur undan vinnuskyldu eftir fyrirspurn frá Kveik – Grunaður um persónunjósnir gegn greiðslu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Kanaríeyjum skaut fáklæddan mann eftir að fjölskylduerjur fóru úr böndunum

Lögreglan á Kanaríeyjum skaut fáklæddan mann eftir að fjölskylduerjur fóru úr böndunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strengslit Mílu við Laugarbakka

Strengslit Mílu við Laugarbakka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Minnir á að símar og akstur fara ekki saman eftir óhugnanlegt slys ungrar dóttur sinnar á sunnudag

Minnir á að símar og akstur fara ekki saman eftir óhugnanlegt slys ungrar dóttur sinnar á sunnudag