Palestínski fáninn verður leyfður aftur í Eurovision höllinni og má birtast á skjánum. Þetta er breyting frá því í fyrra þegar aðeins fánar keppnisþjóða voru leyfðar í Eurovision. Skorður eru hins vegar settar á keppendur í opinberum rýmum.
Sjónvarpsstöðin CNN greinir frá þessu.
Samkvæmt reglubreytingu hjá EBU, sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, verður hægt að flagga palestínska fánanum á nýjan leik í Eurovision. Ekki aðeins honum heldur öllum fánum sem leyfðir eru samkvæmt svissneskum lögum. En Eurovision fer fram í borginni Basel í Sviss dagana 13. til 17. maí næstkomandi.
Reglurnar höfðu verið óbreyttar um árabil en í fyrra þótti sérstök ástæða til að árétta þær og tiltaka að flöggun palestínska fánans væri óheimil. En málefni Palestínu og Ísraels hafa vitaskuld verið mikið í deiglunni síðan stríðið á Gaza hófst haustið 2023 og margir hafa vilja nota Eurovision sem vettvang fyrir mótmælum gegn Ísrael, sem hefur verið þátttakandi í keppninni um áratuga skeið.
Í keppninni í fyrra, sem haldin var í Malmö, beitti þátttakandi heimamanna í Svíþjóð sér fyrir Palestínu með því að bera svokallaðan Palestínuklút, eða keffiyeh, sem gjarnan sést á mótmælum og samstöðufundum.
„Við þurfum að finna jafnvægi til að tryggja að áhorfendur og þátttakendur geti fengið að sýna ákafa sinn og sjálfsmynd, en á sama tíma veita skýrleika fyrir þá þegar kemur að opinberum svæðum,“ sagði í yfirlýsingu EBU í kjölfar reglubreytingarinnar í gær, þriðjudag.
Ekki verða allir fánar eða flögg leyfð. Til að mynda verða fánar sem sýna hatur eða mismunun bannaðir. Sem og fánar sem hvetja til ofbeldis, eru móðgandi eða vanvirðandi. Þá eru allir fánar sem sýna merki hryðjuverkasamtaka bannaðir.
Þá verður keppendum aðeins leyft að flagga sínum eigin þjóðfánum á opinberum Eurovision svæðum. Það er á sviðinu, í hinu svokallaða græna herbergi þar sem keppendur bíða og á sviði Eurovision þorpsins. Þetta þýðir að ekki má flagga palestínska fánanum á þessum stöðum. Ekki heldur regnbogafánanum eða fána Evrópusambandsins svo dæmi séu tekin. Er þetta því herðing á reglunum um flöggun fána á þessum svæðum því að keppendur hafa áður mátt flagga regnbogafánanum.
Ástæðurnar sem gefnar er fyrir þessu eru skýrleiki og hlutleysi. Það er að það verði öllum strax ljóst fyrir hvern viðkomandi er að keppa.
Ýmis réttindasamtök hinsegin fólks hafa þegar gagnrýnt þessa ákvörðun EBU. Meðal annars hollensku samtakanna COC Nederland sem segja það fáránlegt að banna keppendum að flagga regnbogafánanum.
„Þetta er eins og að banna fólki að leiðast, kyssast eða bera eyrnalokk,“ segir í fréttatilkynningu samtakanna. „Fáninn er tákn þess sem þú ert.“
Önnur samtök, Outright International, hafa einnig látið í sér heyra. Benda þau á að Eurovision hafi lengi verið mikilvægt rými fyrir hinsegin fólk. „Bæði listamenn og áhorfendur hættu að fá að fagna því opinberlega,“ sagði Maria Sjödin, framkvæmdastjóri samtakanna.