

„Rómantík og ást er eitthvað sem flestir þrá. Rómantíkin felur í sér eitthvað gott, einhverja sælu, einhverja hamingju sem gefur lífinu gildi. En því miður leyfum við rómantíkinni allt of sjaldan að blómstra í lífi okkar. Og þess vegna förum við alltof oft á mis við hamingjuna og sæluna sem rómantíkin gefur okkur,“ segir hann í byrjun greinar sinnar.
Þórhallur, sem hefur mikla reynslu af hjónabandsráðgjöf, segir að það sé staðreynd að mörg hjón hér á landi lendi í erfiðleikum í sínu hjónabandi og sambúð á lífsleiðinni. Sumum takist að vinna úr þessum erfiðleikum og nota reynsluna til að styrkja sambúðina en önnur sambönd endi í sambúðarslitum.
„Erfiðleikarnir geta verið margvíslegir. Oft er það svo að of margar stundir hverfa í annríki daganna. Til að bæta upp hamingjuleysi, þreytu og stress grípa margir til flöskunnar. Áfengið kemur í stað rómantíkurinnar hjá mörgum pörum sem ekki hafa gefið sér tíma til að rækta ástina. Áfengisneyslan bætist þá ofan á önnur vandamál sem íþyngja fjölskyldunni og eykur þreytuna og lífsleiðann.“
Ætli það séu ekki mörg börn sem kvíða helgum aðventunnar þegar drykkjan tekur völdin í lífi fjölskyldunnar? Og síðan jólunum. Og áramótunum. Það fékk ég alla vega um árabil að heyra þegar ég tók á móti pörum og fjölskyldum í ráðgjöf.“

Þórhallur segist velta fyrir sér hvort ekki sé hægt fyrir þau pör sem eiga í erfiðleikum í sinni sambúð að nota tækifærið þessi jólin og áramótin til að gera hlutina öðruvísi en venjulega.
„Hvernig væri að einsetja sér að gera jólin og áramótin rómantísk og gleðileg fyrir alla fjölskylduna? Einhverjum þykir kannski ómögulegt að koma rómantíkinni að á hátíðunum þegar stressið er allt að færa í kaf. Sérstaklega ef lítið hefur farið fyrir henni að undanförnu. En það er ekki eins erfitt og margir halda,“ segir hann og bætir við að fyrsta skrefið sé að taka ákvörðun um að forgangsraða á nýjan hátt.
„Jólin búa yfir öllu því sem til þarf að styrkja og efla sambandið og fjölskylduna. Það er að segja ef við látum ekki áfengið taka völdin á hátíðinni. Sumir telja sér reyndar trú um að þeir geti ekki gefið rómantíkinni lausan tauminn nema áfengi sé notað til þess að brjóta niður einhverja múra. Áfengi er mikill óvinur ástarinnar. Og ef ástin er í molum er heimilislífið í molum. Á mörgum heimilum ógnar áfengisneysla jólafriðinum. Það er því best að láta drykkina eiga sig og gefa rómantíkinni tækifæri til að blómstra af fúsum og frjálsum vilja þess í stað.“
Þórhallur segir að það sé ekki nóg að annað okkar taki ákvörðun um að forgangsraða upp á nýtt. Fólk þurfi að vera á sama máli og samstíga.
„Hver veit, ef vel tekst til, þá geta einmitt þessi jól og áramót orðið upphafið að nýju og farsælu ástarævintýri í ykkar sambandi. Og áfengislaus jól og áramót verða örugglega besta jólagjöf barnanna ykkar, ef þið eigið þau.“