

Þann 24. febrúar 2022 breyttist allt í lífi Eiríks Stefánssonar. Sama dag og fréttir bárust af innrás Rússa í Úkraínu hófst önnur og persónulegri barátta hjá þessum 15 ára gamla dreng. Hann var í 10. bekk, á fullu í fótbolta og hafði unnið sér sæti í æfingahópi U16 landsliðsins. Ekkert benti til þess að hann væri að verða alvarlega veikur, annað en dularfullt úthaldsleysi.
„Ég fann í janúar á æfingum að þolið var orðið mun minna,“ segir Eiríkur. „Mér fannst það skrítið því hinir strákarnir voru léttir á því en ég var alveg á öndinni.“
Eftir veikindi sem voru ranglega talin vera Covid eða eftirköst þess, fékk hann loks rétta greiningu: Hvítblæði. Það tók Eirík nokkurn tíma að meðtaka alvarleikann. „Mér datt ekki í hug að þetta væri krabbamein, heldur bara einhver tímabundin veikindi. Ég hélt að þetta væri bara einhver vægur sjúkdómur sem auðvelt væri að meðhöndla,“ segir hann. Veruleikinn var hins vegar annar og við tók langt og strangt ferli.
Meðferðin við hvítblæði er ströng og Eiríkur fór strax í lyfjagjöf. Það kom þó á óvart að það var ekki krabbameinið sjálft sem ógnaði lífi hans mest á þessum tíma, heldur heiftarlegar aukaverkanir lyfjanna. Í júlí 2022 fékk hann bráða brisbólgu með drepi sem rakin var til ákveðins krabbameinslyfs.
„Það var það erfiðasta við allt ferlið,“ segir Eiríkur og lýsir atburðarás sem minnir á martröð. Hann fékk fjöllíffærabilun, æðakerfið gaf sig og vökvi safnaðist fyrir í lungum. Eftir eina af mörgum svæfingum reyndist erfitt að vekja hann vegna öndunarörðugleika og því var ákveðið að halda honum sofandi í öndunarvél í rúmlega tvær vikur. Ástandið var tvísýnt um tíma og lá Eiríkur inni á gjörgæslu í 30 daga. Foreldrar hans véku ekki frá honum allan þennan tíma og sváfu þau til skiptis í stól við hlið hans.
Sumarið situr eftir í brotakenndum myndbrotum. Þrátt fyrir að muna lítið eftir gjörgæslulegunni situr þó ein minning föst í honum: Barkaskurðurinn sem gerður var til að tryggja að hann gæti andað. „Ég man eftir því að ég þurfti að hósta til að ná einhverju slími úr opnum hálsinum. Þetta var ógeðslegt,“ segir Eiríkur sem viðurkennir að hann eigi enn erfitt með að skoða myndir frá þessum tíma.
Vegna aðgerðarinnar gat hann ekki talað og reyndi því að tjá sig með því að skrifa á blað. Það reyndist þó töluverð áskorun. „Ég sá ofsjónir,“ rifjar hann upp. Hann lýsir því hvernig hann hélt að hjúkrunarfræðingur inni á stofunni væri einhvers konar skrímsli. Hann bendir á að hann eigi enn myndir af blöðunum í dag en getur lítið lesið úr þeim. „Það stóð bara eitthvað rugl á þeim. Þetta var bara eins og úr einhverri hryllingsmynd.“
„Mér var síðar sagt að ég hefði verið veikasti sjúklingurinn á gjörgæslunni á þessum tíma,“ segir Eiríkur.
Það var á þessum tímapunkti sem Ljósið kom til sögunnar. Eiríkur byrjaði að sækja endurhæfingarmiðstöðina árið 2022, en var lengi vel langyngstur þar. Hann prófaði að mæta á karlahittinga en fann sig ekki í þeim félagsskap eldri manna sem skiljanlega voru á allt öðrum stað í lífinu en hann.
Viðbrigðin að byrja í endurhæfingu voru mikil fyrir fyrrverandi íþróttamann. „Það var alveg skrítið að hafa verið í fótbolta, að rúlla upp styrktaræfingum og vera svo allt í einu gæinn þar sem gömul kona er að gera betur en þú. Það var skrítin upplifun,“ segir hann.
Nálægðin við aðra sjúklinga gat líka reynst erfið. Eiríkur glímdi við mikla vanlíðan eftir barkaskurðinn sem gerður var á gjörgæslunni og fannst óþægilegt að sjá aðra glíma við svipuð vandamál á hálsi.
Það var því kærkomið þegar stofnaður var sérstakur hópur fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára, undir handleiðslu iðjuþjálfa og sálfræðinga. Fyrir Eirík var þetta vendipunkturinn sem vantaði.
Í dag er Eiríkur á góðum stað og bjart yfir þessum efnilega unga manni. Hann ákvað að breyta um stefnu og fann sig á nýrri braut eftir að hafa misst úr heilt ár í Menntaskólanum við Sund og dottið úr takti við jafnaldra sína þar. „Þetta var ekki alveg skólinn til að koma í eftir allt þetta,“ segir Eiríkur og viðurkennir að það sé „ekkert grín að koma til baka“ út í lífið. Hann fann þó réttu hilluna í Tækniskólanum þar sem hann stundar nú nám á hönnunar- og nýsköpunarbraut, auk þess sem hann er kominn aftur á vinnumarkaðinn og starfar í þjónustu á veitingastað samhliða náminu. „Það er mjög gaman og góð hugarleikfimi,“ segir hann um verkefni dagsins í dag.