

Kristján S. Sigmundsson hefur verið kjörinn nýr stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi en kjörfundur reglunnar fór fram þann 31. október síðastliðinn. Fráfarandi stórmeistari er Kristján Þórðarson augnlæknir, sem gegnt hefur embættinu síðan 2019.
Stórmeistari er æðsti stjórnandi Frímúrarareglunnar hér á landi. Reglan var stofnuð hérlendis þann 23. júlí 1951 en alls tilheyra henni um 3.500 félagsmenn.
Í tilkynningu á heimasíðu reglunnar kemur fram að Kristján muni taka við embættinu við formlega innsetningarathöfn þann 15. nóvember í Regluheimilinu við Bríetartún 3, Reykjavík.
Kristján er í dag stjórnarformaður Halldórs Jónssonar heildverslunar en hann var framkvæmdastjóri fyrirtækisins um árabil.