

Guðmundur Mogensen, 41 árs gamall maður af íslenskum ættum, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í Svíþjóð fyrir að myrða konu á sjötugsaldri. Guðmundur myrti konuna til að hefna fyrir morð sem sonur hennar var sakaður um árið 2021. Sonurinn, sem er með tengsl við undirheima Svíþjóðar, var sýknaður fyrir dómi. Expressen og mbl.is greina frá.
Guðmundur er hálfíslenskur en fæddur í Svíþjóð. Hann var áður áberandi í djammlífinu og tónlistarsenunni í Stokkhólmi og bregður meðal annars fyrir í einu tónlistarmyndbandi Avicii. Hann lýsti iðrun fyrir dómi og sagðist átta sig á því að glæpur hans væri ófyrirgefanlegur.
„Ég hef myrt manneskju, móður. Það er ófyrirgefanlegt. Það er óafsakanlegt.“
Guðmundur þekkti ekki fórnarlamb sitt heldur var hann fenginn til verksins af einhverjum ónefndum aðila sem tengist glæpasamtökum í Svíþjóð. Fyrir vikið átti Guðmundur að fá um fjórar milljónir og eitthvað af fíkniefnum.