

Lögreglumenn í umdæmi 1 handtóku mann sem neytti fíkniefna fyrir framan þá og þá var ökumaður kærður fyrir að aka á 133 kílómetra hraða á ótilgreindri götu. Var hann fluttur á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum.
Lögreglumenn handtóku svo mann fyrir hótanir í búsetuúrræði en sá var vopnaður hnífi. Þá var tilkynnt um bifreið sem var ekið um með konu á vélarhlífinni, en umrædd kona var svo handtekin í þágu rannsóknar á öðru máli.
Í umdæmi lögreglustöðvar 2 voru nokkrir ökumenn sektaðir fyrir að vanrækja merkjagjöf, en einn þeirra reyndist að auki vera á ótryggðri bifreið og annar ók einnig gegn rauðu ljósi.
Þá veittu lögreglumenn bifreið athygli sem önnur bifreið var að draga. Kom í ljós að stjórnendur beggja ökutækja voru undir áhrifum fíkniefna og annar þeirra reyndist einnig vera með fíkniefni í fórum sínum. Þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöð.
Í umdæmi lögreglustöðvar 3 var kona kærð fyrir ofbeldi gagnvart lögreglumanni og ökumaður kærður fyrir að aka á gangstétt.