

Landsréttur hefur sýknað Þjóðkirkjuna í máli séra Kristins Jens Sigurþórssonar, en Kristinn Jens stefndi kirkjunni eftir að hann sat eftir atvinnu- og tekjulaus þegar prestkall hans, Saurbær á Hvalfjarðarströnd, var lagt niður.
Kristni bauðst fyrst að taka við öðru embætti en hann óskaði eftir því að fá frekar að fara á eftirlaun. Þeirri beiðni hans var hafnað og vildi Kristinn Jens þá þiggja fyrra boð Þjóðkirkjunnar um að taka við öðru prestsembætti. Kristinn var þó of seinn þar sem annar aðili hafði verið skipaður í embættið.
Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi skaðabótaskyldu Þjóðkirkjunnar í málinu, en Landsréttur var á öðru máli. Rakti Landsréttur að héraðsdómur hafi byggt niðurstöðu sína á þrautavörukröfu Kristins, um að boð biskups um að hann tæki við embætti prests í Garða- og Hvalfjarðarstrandar-prestkalli, hafi ekki verið fallið niður þegar hann ákvað að taka því þann 2. september 2019. Taldi héraðsdómur að Kristinn hafi með réttu geta vænst þess að boðið stæði enn þegar hann tók því, en boðið barst þann 7. mars 2019 og að meðalhófs hafi ekki verið gætt þegar biskup tilkynnti að boðið stæði ekki lengur.
Það sé skilyrði bótaábyrgðar að tjónvaldur hafi sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi eða athafnaleysi og að tjónþoli hafi orðið fyrir tjóni. Þegar Kristni var boðið nýja embættið hafi komið fram að til stæði að skipa í það frá og með 5. apríl 2019. Þjóðkirkjan bauð honum svo frest allt til 10. apríl til að meta boðið, en ef ekki yrði óskað eftir slíkum fresti yrði embættið auglýst í samræmi við almennar reglur. Þann 10. apríl tilkynnti lögmaður Kristins að hann vildi fara á lögmælt eftirlaun. Þegar það gekk ekki eftir ákvað Kristinn að þiggja embættið og sendi bréf um það 2. september 2019.
Landsréttur tók fram að það hafi ekki farið á milli mála að til stóð að leggja niður embætti sóknarprests í Saurbæjarprestakalli og að ekki stæði til að flytja Kristin úr því embætti yfir í annað heldur var verið að veita honum vilyrði fyrir skipun í nýtt embætti. Upplýsingar frá Þjóðkirkjunni hafi verið fullnægjandi til þess að Kristinn hefði getað tekið afstöðu til boðsins. Hann gat ekki vænst þess að vilyrði um skipun í umrætt embætti gæti staðið um langa hríð, enda skýrt gefið til kynna frá hvaða tíma skipunin ætti að taka gildi. Eftir 10. apríl hafi hann ekki með réttu getað bundið traust sitt við að umrætt embætti stæði honum áfram til boða.
Þar með hafi meðalhófs verið gætt og ekkert sem bendi til þess að Þjóðkirkjan hafi bakað sér skaðabótaskyldu með saknæmri eða ólögmætri háttsemi. Þjóðkirkjan var því sýknuð.