fbpx
Fimmtudagur 27.nóvember 2025
Fréttir

Helgi segir Samhjálp vera góða nágranna – „Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 27. nóvember 2025 19:30

Fíladelfíukirkjan í Reykjavík þar sem kaffistofa Samhjálpar er með aðsetur til bráðabirgða. Mynd/Einar Ólason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkur styr hefur staðið um fyrirhugaðan flutning kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg en eftir andmæli nágranna voru framkvæmdir við húsnæðið stöðvaðar þar til grenndarkynningu verður lokið. Þeir sem andmælt hafa því að hafa kaffistofuna á svæðinu lýsa meðal annars yfir áhyggjum af ónæði frá notendum kaffistofunnar og að þeir muni valda ýmis konar vandræðum. Aðrir hafa hins vegar sagt slík viðhorf bera merki um fordóma og að kaffistofan verði að fá að vera einhvers staðar. Helgi Guðnason prestur í Fíladelfíukirkjunni í Reykjavík, þar sem kaffistofan hefur verið undanfarið til bráðabirgða, segir engan ama hafa verið af notendum kaffistofunnar sem sé góður nágranni. Íslenskt samfélag verði hins vegar að horfast í augu við hvernig litið sé á þau sem höllum fæti standa.

Eins og DV hefur greint frá hafa sprottið upp andmæli meðal til að mynda atvinnurekanda í námunda við fyrirhugað húsnæði kaffistofunnar á Grensásvegi.

Uggandi yfir flutningi Kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg – „Fólk er hrætt og vill bara fara að selja“

Þessi skoðun er þó ekki einhlít meðal fólks í nágrenninu.

Sumir íbúar fagna umdeildum flutningi Kaffistofu Samhjálpar í hverfið – „Einhvers staðar verða viðkvæmir að vera“

Grannar

Helgi tjáir sig um umræðuna í aðsendri grein á Vísi. Hann segir að á þeim tveimur mánuðum sem kaffistofan hefur verið í kirkjunni hafi það aldrei gerst að starfsmenn eða gestir kirkjunnar hafi upplifað áreiti eða ógn af hendi skjólstæðinga kaffistofunnar.

Nokkuð hefur borið á fullyrðingum um að það sé helst fólk í óreglu sem noti kaffistofuna en samkvæmt Helga er það ekki rétt:

„Mikið af gestum kaffistofunnar er vinnandi fólk, fólk sem tímabundið er atvinnulaust eða einfaldlega fólk sem gengur gegnum fjárhagslega erfiðleika.“

Helgi hefur ekki yfir neinu að kvarta þegar kemur að umgengni eftir að kaffistofan kom í kirkjuna. Engin sprautunál hafi fundist á lóð kirkjunnar eftir að kaffistofan kom þangað, minna sé um sígarettustubba og húsnæði kirkjunnar sé alls ekki í verra ástandi en áður:

„Kaffistofan er ekki eitthvað greni þar sem óþjóðalýður kemur saman og hangir allan daginn, eins og mætti ætla af tali sumra. Kaffistofa Samhjálpar er þrifalegur matsalur sem ber mannsæmandi mat á borð og mætir hverjum og einum með þeirri reisn og virðingu sem góður Guð hefur gefið hverjum manni.“

Stutt

Helgi leggur áherslu á að á kaffistofunni starfi fólk sem sé þjálfað í að sinna fjölbreyttum hópi. Um 200 matarskammtar séu afgreiddir yfir daginn en yfirleitt séu ekki meira en 30-40 manns á kaffistofunni í einu. Flestir eyði í mesta lagi um klukkutíma þar og í lok dags fari starfsfólkið yfir lóðina, passi að þar sé allt í lagi og enginn sé að hanga þar sem ekki eigi að vera þar.

Helgi segir að eftir umræðu undanfarinna daga um kaffistofuna sé orðið aumingi, sem stundum sé notað í yfirlæti um fólk eins og það sem nýti sér þjónustu kaffistofu Samhjálpar, sér hugleikið:

„Orðið aumingi er notað til að lýsa þeim sem vísvitandi víkur sér undan skyldum sínum, jafnvel þó það valdi öðrum skaða. Aumingi er jafnan sá sem bregst þeim sem honum eru háðir um umönnun eða öryggi, vegna þess að hann tekur þægindi sín fram yfir þau. Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar en hopar um leið og hann mætir jafningja. Aumingi er sá sem hugsar ekki um sig en ætlast til þess að aðrir sjái um hann. Miðað við algenga notkun mætti allavega skilja orðið svona.“

Samfélag

Helgi segir að ganga hafi mátt að því sem vísu að Íslendingar vilji ekki samfélag þar sem börn fari svöng að sofa eða samfélag þar sem fólk verði úti þegar kólnar á veturna:

„Við viljum ekki vera einhverjir aumingjar sem bregðast þeim sem eru í neyð. En hvers konar samfélag erum við þegar það gerist trekk í trekk að félagsleg úrræði fá hvergi húsnæði vegna þess að enginn vill að þjónustan sé í sínu nærumhverfi? Hvers konar samfélag erum við þegar við fellum tár vegna þjáninga í útlöndum, en fólk í neyð í okkar nærumhverfi er ógn eða aumingjar?“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hamed í fimm ára fangelsi eftir hryllinginn við Skyggnisbraut – Hending ein að ekki hlaust mannsbani af

Hamed í fimm ára fangelsi eftir hryllinginn við Skyggnisbraut – Hending ein að ekki hlaust mannsbani af
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmaður í haldi á Hólmsheiði vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi

Lögmaður í haldi á Hólmsheiði vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi