
Föstudaginn 28. nóvember verða liðin fimm ár frá því Anna Linda Bjarnadóttir lögmaður lenti í umferðarslysi á Arnarnesbrúnni. Atvikið átti sér stað á umferðarljósum við umdeild gatnamót, en bíl var ekið á fullri ferð yfir á rauðu ljósi og lenti hann inni í hliðinni á bíl Önnu Lindu.
Einu ári eftir atburðinn lýsti Anna Linda honum svo í viðtali við DV:
„Ég hafði skroppið til Reykjavíkur niður í vinnu og var á leiðinni heim rétt fyrir kvöldmatarleyti, klukkan sjö. Ég fer þarna upp á brúnna, beygi til vinstri og svo er grænt ljós og ég held bara áfram, en ég hafði hingað til getað treyst því að bifreiðar úr gagnstæðri átt stöðvist á rauðu ljósi. Nema hvað, þegar ég er komin yfir umferðarljósin sé ég gráan lítinn sportbíl við hliðina á mér og andartaki síðar skellur hann á mig og þó svo ég hafi verið á 2,5 tonna jeppa tókst mér ekki að halda honum á veginum og hann kastast þarna upp á umferðareyjuna þar sem umferðarljósið var og klessti niður tvennar öryggisstálgrindur áður en bifreiðin stöðvaðist.“
Slysið hefur dregið langan dilk á eftir sér fyrir Önnu Lindu og leiðin til bata hefur verið erfið. Ár hvert reynir hún að minnast atviksins með uppbyggilegum hætti til að efla árvekni í umferðinni. Að þessu sinni verður það gert með viðburði í sal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 9, kl. 18 á föstudaginn. Anna Linda segir á Facebook-síðu sinni:
„Næstkomandi föstudag 28.11.2025 verða liðin 5 ár síðan ölvaða konan keyrði á mig á Arnarnesbrú og breytti lífi mínu til frambúðar. Ég er staðráðin í að nýta öll tækifæri, sem ég finn í þessum árekstri, til að hjálpa öðrum. Eitt af því er að standa fyrir árlegum viðburði á slysdeginum ásamt Þórunni Óskarsdóttur. Viðburðurinn verður haldinn í sal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8, Reykjavík, kl. 18 á föstudaginn. Öll velkomin!
Að þessu sinni helgum við viðburðinn réttlæti og hvernig ríkisvaldið gæti stutt betur við slysþola. Auk mín heldur erindi Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Boðið verður upp á veitingar og ætlar mamma meðal annars að baka vöfflur handa gestum.“