

Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag.
Í fréttinni er sagt frá því að af rúmlega 1.611 kílómetrum af kaldavatnslögum sem Veitur eiga séu tæpir 12 kílómetrar úr asbesti. Stærstur hluti þessara lagna er á Akranesi, eða 11,2 kílómetrar af 112 kílómetrum. Í Reykjavík er efnið að finna í 327 metrum af 1.086 kílómetrum og í Stykkishólmi í 215 metrum af 56 kílómetrum.
Í frétt Morgunblaðsins er vísað í svar Veitna við fyrirspurn blaðsins, en málið kom til umfjöllunar á íbúafundi á Akranesi fyrir skemmstu.
Í svari Veitna kemur fram að rannsóknir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar styðji ekki þá kenningu að hætta stafi af asbesttrefjum í neysluvatni. Hættan stafi af asbesti þegar því er raskað. „Þrátt fyrir það skiljum við vel ef einhver hefur áhyggjur og höfum lagt áherslu á að skipta lögnunum hraðar út en annars væri gert,“ segir í svarinu sem Morgunblaðið vísar til.