

Ungliðahreyfingar hægri flokkanna takast nú á. Ungir sjálfstæðismenn (SUS) birtu í gær myndband þar sem þeir söguðu í stundur gamlan Volvo til að sýna myndrænt hvað ríkissjóður muni taka til sín af verði nýrra bíla frá og með áramótum eftir að vörugjöld verða hækkuð. Það er formaður SUS, Júlíus Viggó Ólafsson, sem stígur á stokk í myndbandinu og gagnrýnir hann harðlega þessar skattahækkanir sem beinist að venjulegu fólki í landinu, geri ekkert til að auka innlenda framleiðslu heldur muni bara keyra upp verð á bifreiðum, sama hvort þær séu nýjar eða notaðar.
Við söguðum í sundur bíl um helgina. Stundum þarf bara að sýna hlutina myndrænt 🚗🪚 pic.twitter.com/SGiIWHjjwi
— Ungir sjálfstæðismenn (@ungirxd) November 24, 2025
Ungir Miðflokksmenn hafa nú svarað með sínu eigin myndbandi en þar hæðist formaðurinn, Anton Sveinn McKee, að SUS og bendir á það var seinasta ríkisstjórn sem lagði til þessa hækkun, nánar tiltekið var það ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórsson. Því sé SUS að mótmæla hugmynd sem kom frá þeirra eigin flokki.
„Flott myndband, það er bara eitt vandamál. Þetta er arfleifð Sjálfstæðisflokksins í seinustu vinstristjórn. Sjáið þið til, áður en Guðlaugur Þór fór úr embætti sem loftlags- og orkumálaráðherra þá kynnti hann 150 loftlagsaðgerðir Sjálfstæðisflokksins. Tvær af þeim fóru nákvæmlega inn á það sem Sjálfstæðismenn eru að gagnrýna í dag sem er S.5.C.5, sem eru vörugjöld á bensín og dísilbifreiðar, að auki átti að banna allar bensín- og dísilbifreiðar árið 2028 undir aðgerðarliðnum S.5.c.10. Það skemmtilegasta við þetta er að þessi vörugjöld áttu að vera latar á venjulegt fólk og koma í veg fyrir að það myndi kaupa venjulega bíla. Þetta átti að halda áfram að styrkja undir kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til sem kostaði 1,4 milljarða í að styrkja ríkasta fólkið í landinu í að kaupa rafbíla. 50 prósent af þessum pening fór til ríkasta fólksins í landinu. Er þetta skynsamlegt? Nei. Við þurfum ekki að saga niður bíla til þess að sýna fram á alla vitleysuna sem að vinstristjórnirnar hafa komið með. Lausnin er einföld – kjósum Miðflokkinn.“
SUS saga bíl til að mótmæla innleiðingu aðgerðaráætlunar sem Sjálfstæðisflokkurinn eyddi hundruðum milljóna kr. í að búa til. pic.twitter.com/AI6AoEVpqb
— Ungir Miðflokksmenn (@ungirxm) November 25, 2025
Aðgerðaráætlun í loftlagsmálum var kynnt í júní á síðasta ári. Guðlaugur Þór sagði áætlunina lykilþátt í loftlagsvegferðinni sem væri hvergi nærri hætt. „Tími framkvæmda er fram unda. Ég hvet alla þá aðila sem bera ábyrgð á losun, stóra sem smáa, til að vera hluti af þeim miklu breytingum sem framundan eru.“
Eins og Anton Sveinn bendir á má þarna finna aðgerðarlið sem fjallar um vörugjöld en þar eru lögð til: „Stigvaxandi bifreiða- og vörugjöld á ökutæki, knúin jarðefnaeldsneyti, til samræmis við losun þeirra þar til nýskráning ökutækja, knúnum eingöngu jarðefnaeldsneyti, verður óheimil.“.
Hinn liðurinn sem Miðflokksmaðurinn bendir á fjallar um útfösun bensín og dísel bíla á Íslandi en þar segir í áætlun:
„Í eldri aðgerðaráætlun var meginreglan sú að óheimilt yrði að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030 en í skoðun er að flýta þessari tímalínu um tvö ár og einnig er lagt til að útvíkka skráningarbannið þannig að það gildi einnig fyrir ökutæki sem nota blandaða orkugjafa (bæði hreinorkugjafa og jarðefnaeldsneyti).“