
Karlmaður um þrítugt, Eivydas Laskauskas, 25 ára kona, Kamile Radzeviciute, og karlmaður á sextugsaldri, Egidijus Dambraukskas, hafa verið ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabraot, fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á rúmlega 5,6 kg af kókaíni.
Efnin voru falin í bíl af gerðinni BMW, sem var fluttur hingað til lands. Þau Kamile og Egidijus keyptu bílinn í gegnum fyrirtæki Kamile, Heklarar ehf, fluttu hann út til Litháens, þaðan sem þetta fólk virðist vera, og fluttu hann síðan aftur til landsins.
Í ákæru er greint frá því að bíllinn hafi komið til Þorlákshafnar 16. júní síðasta sumar með flutningaskipi frá Danmörku. 3. júli sótti Egidijus bílinn til Tollstjóra í Kópavogi og ók honum að bílastæði við Nettó í Breiðholti. Þar stóð bíllinn í tvo daga en hann færði hann síðan yfir á bílastæði við Mini Market við Drafnarfell í Breiðholti. Þann 7. júlí keyrði Egidijus bílinn að bílaverkstæði við Gljáhellu í Hafnarfirði og þar hitti hann, síðar þennan dag, Eivydas og Kamile við bílinn. Daginn eftir voru þau öll saman komin við bílaverkstæðið þegar bílnum var ekið inn og upp á bílalyftu. Þar voru þau þrjú handtekin en lögreglan fann fíkniefnin í drifskafti og grindarbitum bílsins.
Auk þess að krefjast refsingar yfir þremenningunum krefst héraðssaksóknari uppgöku á BMW bílnum, sex farsímum í eigu fólksins og 5,6 kg af kókaíni.
Aðalmeðferð verður í málinu við Héraðsdóm Reykjaness þann 1. desember næstkomandi.