

Sigmar segir eðlilegt að stjórnmálamenn hafi mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að bregðast við vegna málsins. Niðurstaða ESB hafi verið vonbrigði fyrir okkur öll.
„Hún er ekki í neinu samræmi við EES-samninginn og ég held að það séu flestir sammála um það hér á landi. Sá samningur er að líkindum mikilvægasti samningur sem Íslendingar hafa gert. Hann er í raun undirstaða efnahagslegrar velmegunar í landinu og því skipta viðbrögð stjórnmálaleiðtoga miklu. Bæði forsætis- og utanríkisráðherra hafa talað skýrt í málinu og mótmælt þessari ákvörðun Evrópusambandsins harðlega, bent á að þetta sé brot á EES-samningnum og málið verði tekið lengra,“ segir Sigmar og bætir við að þessu hafi margoft verið komið skýrt á framfæri við stjórnmálaleiðtoga innan Evrópusambandsins.
„Ég er líka sannfærður um að það sé ekki gagnlegt fyrir íslenska hagsmuni þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, kallar þetta sama stjórnmálafólk í Evrópu glæpamenn líkt og hún gerði í viðtali við Stöð tvö á dögunum. Hvort sem við erum nú þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga inn í sambandið eða ekki, þá eru hagsmunir þjóðarinnar í EES-samstarfinu svo miklir, að pólitískur freistnivandi má ekki verða til þess að grafa undan þeirri hagsmunagæslu sem þarf alltaf að vera í gangi og er beinn hluti af veru okkar í EES,“ segir Sigmar í grein sinni.
Hann heldur áfram og segir að ábyrg stjórnmálaöfl, sem segjast gjarnan vera talsmenn frjálsra viðskipta, verði að átta sig á því að eitthvert „innanhússkapphlaup stjórnarandstöðunnar um hver sé nú mest á móti ESB“ megi ekki verða til þess að sá samningur sem tryggir okkur frjáls viðskipti í Evrópu veikist.
„En það gerist með svona tali og einnig hugmyndum sama fólks um að hætta nú að innleiða EES-reglugerðir, sem engu skila nema að grafa undan EES-samningnum. Slíkar hefndarráðstafanir bitna ekki á ESB heldur íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Fyrir nú utan að við Íslendingar verndum sjálf íslenska hagsmuni með tollum eins og þurfa þykir. Án þess að kallast glæpamenn.“
Sigmar gagnrýnir svo sérstaklega þessi ummæli Guðrúnar í viðtalinu við Stöð 2 á dögunum:
„Maður getur líka ekki annað en leitt hugann að því, hvort að ríkisstjórnin hafi litið svo á að það mætti veikja svona samningsstöðu Íslands, og þar með myndi það nýtast ríkisstjórninni, og málflutningi hennar gagnvart inngöngu í Evrópusambandið.“
Sigmar segir að með þessum orðum sé Guðrún að gefa því undir fótinn að það sitji ríkisstjórn í landinu sem sé meðvitað og skipulega að grafa undan hagsmunum íslenskra fyrirtækja.
„Að ríkisstjórnin sé svo vond að hún ákveði meðvitað að ógna lífsviðurværi fólks og fyrirtækja. Ég vona að hér tali Guðrún án mikillar ígrundunar. Ef ekki, þá er kapphlaupið um Miðflokksfylgið að draga flokkinn ofan í fen sem erfitt verður að komast upp úr.“