

Ungir sjálfstæðismenn gáfu í morgun út myndband á samfélagsmiðlum þar sem þeir söguðu í sundur bíl. Tilgangur verknaðarins var að sýna fram á þær skattahækkanir sem „venjulegt fólk“ mun lenda í þegar fyrirhugaðar hækkanir á vörugjöldum á bíla taka gildi um áramótin.
Formaður SUS, Júlíus Viggó Ólafsson, útskýrir fyrir áhorfendum hvernig ríkisstjórnin hyggst hækka þennan skatt, þvert á loforð ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar. Þar eftir er „Volvo station“, venjulegur bíll, sagaður í sundur til að sýna hversu hátt hlutfall af kaupverði bílsins fer beint til ríkisins eftir að hækkanirnar taka gildi á næsta ári. Í þessu tilfelli mun rúmlega 40% af kaupverði bílsins fara til ríkisins eftir hækkunina.
Ungir sjálfstæðismenn benda á það að hér er vissulega verið að hækka skatta á venjulegt fólk, þar sem flest allir Íslendingar þurfa að keyra bíl, hvort sem þeim eða öðrum líki það betur eða verr.
SUS vörugjöld