

Mennta- og barnamálaráðuneyti Guðmundar Inga Kristinssonar er allt annað en sátt við vinnubrögð Morgunblaðsins. Í annað skiptið á skömmum tíma hefur ráðuneytið birt tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem fréttaflutningur blaðsins er gagnrýndur.
Fyrst snerist gagnrýni ráðuneytisins á fréttaflutning Morgunblaðsins þar sem fullyrt var að unglingadrykkja hefði aukist að nýju. Fullyrti ráðuneytið að þvert á móti væri niðurstöður rannsóknarinnar þær að vímuefnaneysla ungmenna hefði ekki aukist í ár eða síðustu ár.
Í dag birtist síðan önnur tilkynning þar sem frétt Morgunblaðsins á fimmtudaginn var gagnrýnd en í henni var áfram fullyrt að vímuefnaneysla ungmenna hefði aukist og gefið í skyn að ráðherrann hefði sagt ósatt þegar hann vitnaði í Íslensku æskulýðsrannsóknirnar þess efnis að vímuefnaneysla ungmenna hefði ekki aukist. Þá sagðist blaðið standa við fréttir sínar af málinu.
„Þar með gefur fjölmiðillinn áfram til kynna að neysla hafi aukist sem er rangt á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Mennta- og barnamálaráðuneytið reyndi að koma réttum upplýsingum á framfæri sem byggðar eru á nýjustu og áreiðanlegustu rannsókn á þessu sviði en í stað þess að leiðrétta þá sendi miðillinn ráðuneytinu svar og birti frétt þess efnis að standa við sinn fréttaflutning. Auk ráðuneytisins hefur Íslenska æskulýðsrannsóknin reynt að koma réttum upplýsingum til almennings. Ráðuneytið lítur málið alvarlegum augum og telur miðilinn vera af þeim sökum vísvitandi að veita rangar og villandi upplýsingar,“ segir í tilkynningunni.
Þá sakar ráðuneytið Morgunblaðið um að hafa ekki kynnt sér heimildir sem Guðmundur Ingi hafði fyrir fullyrðingu sinni.
„Þess í stað er sökinni varpað á ráðherra að hafa ekki tilgreint heimild sína. Þó viðurkennir miðillinn að ráðherra hafi nefnt Íslensku æskulýðsrannsóknina fyrr í máli sínu. Með öðrum orðum, einn af stærstu fjölmiðlum landsins birti frétt þar sem útgangspunktur allrar fréttarinnar er að rengja orð ráðherra í ræðustól Alþingis án þess að hafa svo mikið sem kynnt sér heimild hans eða nýjustu og áreiðanlegustu rannsóknina á þessu sviði. Fjölmiðillinn dregur fram að ráðherra hafi ekki vitnað í sína heimild í sömu andrá og hann fór með fullyrðinguna í svari til ráðuneytisins og í frétt sinni þar sem fjölmiðillinn stendur við sína ranga og villandi upplýsingagjöf. Fjölmiðillinn virðist því líta svo á að ráðamenn eigi að tilgreina heimild fyrir öllum sínum staðhæfingum frekar en að það sé hlutverk blaðamannsins að leggja í lágmarks rannsóknavinnu, hvað þá þegar það á að saka ráðherra um að segja ósatt frá á æðsta vettvangi íslenskra stjórnmála,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Þá rekur ráðuneytið fleiri dæmi um vinnubrögð Morgunblaðsins sem fullyrt er að orki tvímælis.