

Forn fjandskapur milli Kína og Japans hefur blossað upp á ný og gert það að verkum að ástandið í heimshlutanum hefur ekki verið eins hættulegt um árabil. Deilur ríkjanna um Taívan og hinar umdeildu Senkaku-eyjar hafa leitt til hótana, hernaðarviðbúnaðar og sífellt kuldalegri orðaskipta.
Spennan jókst til muna í vikunni þegar Japanir sendu orrustuþotur á loft eftir kínverskir drónar sáust á flugi nálægt Yonaguni-eyju, syðsta hluta Japans sem er skammt frá Taívan. Á sama tíma sigldi floti kínverskra landhelgisgæsluskipa í nokkrar klukkustundir inn landhelgi við áðurnefndra Senkaku-eyja, sem Japan stýrir en Kína krefst yfirráða yfir.
Japanir hafa hótað Kínverjum hernaðarviðbrögðum ef hinir síðarnefndu gera innrás í Taívan enda liggur eyríkið aðeins 110 kílómetrum frá Yonaguni-eyju sem tilheyrir Japan. Er talið að Kínverjar ætli sér að ráðast inn í eyríkið árið 2027.
Varnarmálaráðherra Kínverja, Jiang Bin, var harðorður í garð Japana og gekk svo langt að hóta því að „skera af skítugan haus“ ef Japanir hefðu sig ekki hæga. Var það túlkað sem bein hótun gegn Sanae Takaichi, sem tók við sem forsætisráðherra Japan í október. Urðu þessi orð tilefni til formlegra mótmæla frá Tókíó.
Ósætti milli Kína og Japan er ekki nýtt af nálinni heldur á það sér djúpar sögulegar rætur. Kínaverjum svíður enn innrás Japana á fjórða áratug síðustu aldar og sér í lagi fjöldamorðin í Nanjing sem seint verða fyrirgefin.
Japanir eru á móti afar uggandi yfir ágangi og vaxandi hervæðingu Kínverja og álíta að stöðugleiki Taívan sé lykilatriði varðandi þjóðaröryggi þeirra.
Japan hefur á undanförnum árum eflt hernaðargetu sína, þó hún standi langt að baki þeirri kínversku. Japan hefur um 247 þúsund hermenn samanborið við um 2 milljónir kínverskra hermanna.
Japan byggir hins vegar á tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Bandarískir hermenn eru staðsettir á Okinawa og víðar í landinu, og Washington hefur ítrekað áréttað að samningurinn taki einnig til Senkaku-eyja. Slík skuldbinding gæti leitt Bandaríkin beint inn í átök ef frekari árekstrar eiga sér stað.
Kína nýtur á móti nánara samstarfs við Rússland, sem hefur styrkst frá innrás því hinir síðarnefndu bléstu til stríðs í Úkraínu. Þá er ljóst að Norður-Kórea myndi styðja Kína ef til átaka kæmi.
Ljóst er að mikil spenna er á svæðinu og gætu lítil atriði hrundið af stað ógnvekjandi atburðarás.