

Ljósadýrð og gleði er í fyrirrúmi við Ingólfstorg líkt og síðustu ár í aðdraganda jólanna en Novasvellið opnaði í ellefta sinn í miðborginni í gær. Skautasvellið er löngu orðið ómissandi þáttur í undirbúningi jólanna og er opið jólabörnum á öllum aldri alla aðventuna.
Það var Hinsegin kórinn sem söng inn hátíðarstemninguna í gær og að því loknu sýndu skautarar frá listskautadeild Fjölnis listir sínar. Þar komu meðal annars fram atvinnuskautararnir Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza sem hafa náð eftirtektarverðum árangri á heimsvísu undanfarið ár.

Eins og síðustu ár verður fjörug dagskrá á Ingólfstorgi alla aðventuna, tónlist, gestir og reglulegir viðburðir um helgar. Tulipop koma meðal annars í heimsókn, boðið verður upp á karaoke á ísnum og í fyrsta sinn mennsk krulla þar sem þátttakendum er ýtt í uppblásnum kleinuhring eftir svellinu. Novaálfarnir munu bjóða andlitsmálningu og leiki fyrir yngstu skautarana um helgar. Rjúkandi heitt kakó er alltaf á svæðinu og líklegt að jólasveinar muni renna á lyktina og láta sjá sig.


„Novasvellið er einfaldlega orðin jólahefð. Það hafa um 20.000 manns heimsótt svellið síðustu ár og við erum alltaf jafnstolt af því að taka þátt í að skapa símalausar gæðastundir og gleði fyrir jólin. Hátíðirnar snúast fyrir okkur um að njóta lífsins saman og skapa góðar stundir með fjölskyldunni, vinum og skemmtilegu fólki og það eru fáir staðir betri til að upplifa jólastemninguna en á Ingólfstorgi rétt fyrir jólin. Við ætlum okkur að halda uppi jólaandanum alla daga til 27. desember og vonum bara að snjórinn láti sjá sig líka.“ segir Sigurbjörn Ari Sigurbjörnsson, markaðsstjóri Nova.
Skautasvellið verður opið alla daga til 27. desember að undanskildum aðfangadegi, jóladegi, og öðrum í jólum, en er opið til kl. 23 á Þorláksmessu líkt og hefð er fyrir og ætlar þá sjálfur Valdimar að syngja inn jólin í miðborginni.


