
DV greindi í morgun frá fyrirhuguðum flutningi Kaffistofu Samhjálpar í húsnæði að Grensásvegi 46 og mikilli andstöðu íbúa í húsalengjunni þar og nærliggjandi húsum við áformin.
Formaður húsfélags Grensásvegar 44-48 ræddi við DV og sagði engan íbúa í næsta nágrenni vilja sjá starfsemi kaffistofunnar í hverfinu því skjólstæðingum Samhjálpar geti fylgt óæskileg hegðun, til dæmis óhóflegar reykingar í grennd við íbúðahúsnæði. Benti hann á að fjölmargar barnafjölskyldur byggju í næsta nágrenni við húsalengjuna og grunnskólar væru skammt undan.
„Það er mikil hræðsla hjá barnafjölskyldum hér að fá þetta ógæfufólk hingað í hverfið. Svona starfsemi á ekki að fá starfsleyfi í gamalgrónu íbúðahverfi í nálægð við skóla,“ sagði Geir í samtali við DV. Hann sagði ennfremur:
„Fólk er hrætt og vill bara fara að selja. Og það er enginn að fara að kaupa íbúð þar sem Samhjálp er í næsta nágrenni. Þannig að þetta er bara rýrnun á húsnæði.“
Málið er til umræðu í hverfishópnum 108 RVK á Facebook. Þar taka margir upp hanskann fyrir Samhjálp og fagna komu kaffistofunnar. Tekið skal fram að óvíst er að þeir íbúar búi í næsta nágrenni við fyrirhugaða staðsetningu kaffistofunnar. Í upphafsinnleggi umræðunnar segir:
„Ég vildi vekja athygli hér í hópnum á að til stendur að kaffistofa Samhjálpar opni á Grensásvegi 46 þar sem áður var búð sem seldi heilsurúm. Þetta hefur ekkert verið kynnt af Reykjavíkurborg fyrir íbúum og fyrirtækjaeigendum í næsta nágrenni. Ekki einu sinni fyrir íbúðareigendum á sömu lóð. Byrjað er að standsetja húsnæðið og stefnt að því að opna strax í byrjun desember. Þetta er viðkvæm og umfangsmikil starfsemi sem hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á nánasta umhverfi. Ég vildi bara koma þessum upplýsingum á framfæri þar sem borgin hefur ekki sinnt því og kannski koma af stað umræðu um þetta.“
Einn íbúi bregst svona við þessum fréttum:
„Er það ekki bara hið besta mál? Einhvers staðar verða viðkvæmir að vera, og þetta er aðgengilegt húsnæði í vinalegu hverfi.“
Flestir aðrir sem taka þátt í umræðunni segja þetta góðar fréttir og fagna komu kaffistofunnar í hverfið. Ein kona skrifar:
„Frábært. Samhjálp vinnur svo gott og fallegt starf. Ég vona bara að öllum þeim sem njóta aðstoðar þeirra til að næra sig líði vel að koma í heimsókn í hverfið okkar.“
Umræðan er meira og minna stríður straumur af fallegum kveðjum til Samhjálpar en þetta innleg konu einnar í atvinnurekstri vakti sérstaka athygli DV:
„Ég var með mitt fyrirtæki við hliðina á Kaffistofu Samhjálpar þar sem hún var, frábært fólk að vinna þarna og gott fólk sem þau voru að sinna. Mikið er ég glöð að þau fái húsnæði, því þau sinna svo bráðnauðsynlegu starfi. Ekki bara að gefa að borða (sem er mikilvægt fyrir líkama og sál allra) heldur er þarna félagsskapur og fallegt starf. Borgin þarf ekki að tilkynna flutninga fyrirtækja í borginni!“