

Fjölskyldudrama var tekið fyrir hjá Landsrétti nýlega en þar freistaði faðir þess að fá dóttur sína til að endurgreiða sér hluta af söluvirði fasteignar sem þau höfðu keypt saman.
Málið hefur lengi þvælst í gegnum dómskerfið. Dómur féll fyrst í apríl 2023 en var svo ómerktur í Landsrétti árið 2024 og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. Dómur féll svo í Héraðsdómi Reykjaness í janúar á þessu ári en hefur nú verið snúið við í Landsrétti.
Deilt er um fasteign og söluandvirði hennar. Feðgin keyptu saman eign árið 2018 á 76,5 milljónir. Þau voru skráð fyrir sitthvorum eignarhlutanum, 50 prósent hvort. Faðirinn greiddi sinn hluta með reiðufé en dóttirin tók veðlán fyrir sínum. Það gerðist svo tveimur árum síðar að dóttirin seldi eignina og keypti aðra með þáverandi sambýlismanni. Faðirinn hélt því fram upphaflega fyrir dómi að hún hefði ráðstafað söluandvirði fyrir hans eignarhluta til nýju eignarinnar án hans vitundar eða samþykkis. Þetta reyndist þó rangt eins og sýnt fram á fyrir dómi. Eftir að málið var sent aftur til héraðsdóms breytti faðirinn stefnunni. Hann hélt því ekki lengur fram að hann hafi ekki veitt dóttur sinni heimild til að ráðstafa söluandvirðinu í nýju eignina heldur að hann hafi ekki verið meðvitaður um að hún væri að kaupa eignina með sambýlismanninum.
Því er lýst í dómi að faðirinn reyndi ekki að innheimta söluandvirðið eftir að dóttirin keypti seinni eignina. Svo fór þó að harðna í ári hjá foreldrunum en á sama tíma, tveimur árum eftir að seinni eignin var keypt, slitnaði upp úr sambúð dótturinnar. Hún lýsti því að hafa neyðst til að flýja land til að losna undan áreiti fyrrverandi sambýlismannsins og hefur farið huldu höfði erlendis með aðstoð félagsmálayfirvalda. Eftir að hún flúði fór hún að gera ráðstafanir varðandi eignina sem hún átti með fyrrverandi sambýlismanninum. Hún ætlaði að selja. Þá vildi faðirinn fá peninginn sinn til baka en dóttirin neitaði sem varð til þess að faðirinn lét kyrrsetja eign hennar.
Dóttirin hélt því fram að faðir hennar hefði í raun gefið henni peningana. Um örlætisgerning hafi verið að ræða enda skýri hann sjálfur frá því að tilgangur fasteignakaupanna hafi verið að hjálpa dótturinni að koma þaki yfir höfuð sitt og barna sinna.
Faðirinn sýndi þó samskipti sem dóttirin hafði átt við móður sína sem bentu til annars. „Eg bað um fyriframgreiddan arð fyrir þau á sínum tíma og [þ]etta hefði verið það hefði allt verið óbreytt. Og ég leit á þetta þannig þar sem þetta var draumahúsið okkar. Svo getið þið gert okkur arðlaus í framhaldinu ef þetta snýst um það. […] Ef þú ætlar að fara að hræra í þessu með þessum leiðum þá er það að fara að hafa áhrif á þeirra framtíð og lífsgæði. Þitt er valið og hvað er mikilvægara fyrir þig.“
Móðirin svaraði og bað dóttur sína að hætta að nota börnin til að kveikja samviskubit. Foreldrarnir væru með hreina samvisku.
Héraðsdómur dæmdi föðurnum í vil. Þar taldi dómari ljóst að dóttirin bæri sönnunarbyrði fyrir því að um örlætisgerning hafi verið að ræða. Henni hafi þó ekki tekist að sanna það. Dótturinni var því gert að endurgreiða föður sínum um 38,3 milljónir.
Landsréttur benti þó á að grundvallarforsenda í upphaflegri stefnu málsins hafi verið sú að dóttirin hafi selt fyrri eignina og ráðstafað öllu söluandvirðinu í kaup á nýrri eign í eigin nafni án vitundar og samþykki föðurs. Þetta hafi reynst rangt, enda vissi faðirinn af kaupunum, hafði veitt umboð og meira að segja skoðað eignina með dóttur sinni. Hann sé bundinn við þann málsgrundvöll enda hafi dóttir hans ekki samþykkt að aðrar málstæður kæmust að. Þar með væru nýjar málsástæður of seint fram komnar. Kröfu föðursins var hafnað, dóttirin sýknuð og kyrrsetningu aflétt.
Þarf að endurgreiða um 38,3 milljónir og borga föður sínum 800 þúsund krónur í málskostnað. Dómari neitaði sömuleiðis að staðfesta kyrrsetningu á eignum dótturinnar.