

Sláandi 200 blaðsíðna skýrsla um hrottalegar pyntingar og nauðganir sem drengir í bresku unglingafangelsi þurfti að sæta skekur nú Bretland. Breskir miðlar hafa gert skýrsluna að umfjöllunarefni en í henni er lýst hryllingi sem átti sér stað í Medomsley Detention Center, vistheimili í Durham-sýslu á árunum 1961 til 1987.
Þar voru vistaðir ungir drengir sem höfðu gerst sekir um væg afbrot og dvöldu flestir þeirra þar aðeins í nokkra mánuði.
Þar starfaði Neville Husband, sem hafði yfirumsjón með eldhúsi vistheimilins en í skýrslunni er ályktað að hann sé mögulega einn versti kynferðisbrotamaður í breskri sögu.
Yfir 2.800 fyrrverandi fangar hafa nú borið vitni um kynferðislegt eða líkamlegt ofbeldi á vistheimilinu. Af þeim 549 kynferðisbrotamálum sem rannsökuð voru beindust 338 að Husband, sem starfaði þar í rúma tvo áratugi.
Í skýrslunni kemur fram að aðrir starfsmenn hafi vitað af brotunum. Sumir þeirra kölluðu fórnarlömbin „eiginkonur Husband“ en gerðu ekkert til að stöðva ofbeldið.
„Þetta var vistheimili sem starfaði utan laga,“ er haft eftir Adrian Usher, sem stýrði vinnunni við skýrsluna „Þeir sem unnu þar vissu að eitthvað alvarlegt var að, en annað hvort tóku þeir þátt eða völdu að líta undan.“
Drengirnir, flestir 17 til 21 árs, voru dæmdir fyrir minniháttar brot eins og þjófnað eða ógreiddar sektir. Um leið og þeir komu á staðinn var þeim hótað og þeir barðir til hlýðni. Husband nýtti stöðu sína til að velja sér fórnarlömb í eldhúsinu, þar sem hann drottnaði yfir öllu.
Sumir voru teknir upp á skrifstofu hans eða í birgðageymslu þar sem hann lokaði þá inni, nauðgaði þeim og beitti hrottalegu ofbeldi. Vitni lýstu því að hann hefði hótað þeim lífláti ef þeir segðu frá. „Ég get látið þig hverfa,“ er hann sagður hafa hvíslað að einum drengnum.
Í einni frásögninni lýsti fórnarlamb því hvernig Husband batt snúru um háls hans, kyrkti hann og nauðgaði honum með hníf við hálsinn.
Aðrir sögðu frá „innvígsluathöfnum“ þar sem nýir fangar voru látnir sæta kynferðislegu ofbeldi að skipun Husband, stundum með hjálp annarra fanga.
Misnotaðir af hátsettum einstaklingum
Í nokkrum vitnisburðum kemur fram að Husband hafi farið með drengi út fyrir vistheimilið til að misnota þá í svokölluðu „fínu húsi“, þar sem aðrir menn tóku þátt, þar á meðal starfandi lögreglumaður sem og einn dómari sem hafði áður dæmt drengina í vistun á heimilinu.
Einn samstarfsmaður Husband, Leslie Johnston, tók einnig þátt í fjölda brota. Hann var síðar dæmdur til níu mánaða fangelsis fyrir tvö tilvik um kynferðislega áreitni árið 1990, en lést árið 2007.
Þrátt fyrir ábendingar og ásakanir fékk Husband sérstaka orðu fyrir störf sín í fangelsismálum og var jafnframt vígður sem prestur eftir starfslok.
Husband var fyrst handtekinn árið 1999 vegna ásakanna en mörg mál reyndust fyrnd. Hann var loks dæmdur árið 2005 fyrir 27 brot gegn 24 fórnarlömbum, en fleiri mál gegn honum voru ekki sótt vegna „almannaheilla“.
Husband var látinn laus árið 2009 og lést ári síðar. Í skýrslunni er þó fullyrt að hann hafi misnotað drengi bæði fyrir og eftir tíma sinn á vistheimilinu.
Yfirvökd hafa fengið harða gagnrýni fyrir að hafa hunsað allar ábendingar vegna málsins áratugum saman. Jake Richards, ráðherra málaflokksins bað alla hlutaðeigandi afsökunar vegna málsins í kjölfar þess að skýrslan kom út og sagði mikilvægt að lærdómur yrði dreginn af henni. Eitthvað þessu líkt mætti aldrei gerast aftur.