fbpx
Laugardagur 04.október 2025
Fréttir

Leiðréttir misskilning um Reykjavíkurmódelið í leikskólamálum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. október 2025 16:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki er búið að samþykkja tillögur stýrihóps í leikskólamálum Reykjavíkurborgar, svokallað Reykjavíkurmódel. Þetta kemur fram í færslu Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa. Tillögurnar eiga eftir að fara í víðtækt samráð þar sem fengnar verða fram raddir starfsfólks, foreldra, verkalýðshreyfingarinnar og allra sem málið snertir.

Tillögurnar hafa þegar vakið athygli um umtal, en sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra. Tillögurnar minna um margt á umdeilt Kópavogsmódel þar sem leikskólavist var gerð gjaldfrjáls fyrstu sex vistunartíma dagsins á meðan gjald fyrir umframtíma hækkaði ríflega. Eins var foreldrum gert skylt að skrá börn sín sérstaklega í vist milli jóla og nýárs, í dymbilviku og í haust- og vetrarfríum og sérstakt gjald innheimt fyrir skráða daga.

Tillögur Reykjavíkurborgar eru af sama meiði en eru sagðar taka mið af gagnrýni á Kópavogsmódelið. Lögð er til ný tekjutengd gjaldskrá með hvötum til að hafa dvalartíma barna í hverri viku 38 tíma eða skemmri auk þess að innheimta sérstakt gjald fyrir virka daga milli jóla og nýárs, í dymbilviku og í haust- og vetrarfríum grunnskóla. Gjaldskráin er sögð taka mið af tekjum foreldra og aðstæðum. Almennt muni gjaldið lækka hjá foreldrum í lægsta tekjuhópnum en hækka hjá þeim sem eru með hærri tekjur.

Sanna Magdalena bendir á að málið sé enn í vinnslu, tillögurnar hafi ekki verið samþykktar og samráðsferli sé eftir. Foreldrum og öðrum mun gefast kostur á að skila inn umsögn í gegnum samráðsgátt borgarinnar frá og með 15. október næstkomandi.

„Til að leiðrétta misskilning þá er ekki búið að samþykkja tillögur stýrihóps í leikskólamálum, nú færa þær í víðtækt samráð. Mikilvægt er að fá fram raddir starfsfólks, foreldra, verkalýðshreyfingarinnar og allra sem málið snertir.

Borgarráð hefur samþykkt að setja tillögur að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla í samráðsferli. Þetta var ákveðið í framhaldi af áfangaskilum stýrihóps um leikskólaleiðina í Reykjavík. Stýrihópurinn var þverpólitískur og ekki er um að ræða tillögur sem koma eingöngu frá samstarfsflokkunum.

Hugmyndirnar voru kynntar leikskólastjórum um miðjan september, og verða sendar foreldraráðum leikskóla, leikskólastjórum og stéttarfélögum starfsfólks.
Þann 15. október verður opnuð samráðsgátt þar sem foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir velunnarar leikskólamála geta sent inn umsögn. Samráðsgáttin verður opin í tvær vikur eða til 29. október. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt