Vefur Daily Mail varpar ljósi á árásarmanninn en hann ók bifreið sinni á hóp fólks fyrir utan samkomuhúsið áður en hann réðst til atlögu með hníf. Þrír aðrir voru fluttir á sjúkrahús með alvarlega áverka en Al-Shamie var skotinn til bana af lögreglu.
Al-Shamie hafði komið til Bretlands frá Sýrlandi sem barn og ólst hann upp rétt hjá vettvangi árásarinnar. Hann fékk breskan ríkisborgararétt árið 2006, þegar hann var 16 ára gamall.
Lögregla gaf það út í gær að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða og það hafi ekki verið tilviljun að hún átti sér stað á Yom Kippur, helgasta degi gyðinga.
Faðir hans, Faraj Al-Shamie, er menntaður læknir og hefur hann búið á Manchester-svæðinu lengi. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að hann hafi starfað fyrir ýmis hjálparsamtök í stríðshrjáðum löndum. Hann birti mynd á Facebook í fyrra af syni sínum þar sem hann hélt á nýfæddu barni sínu.
Breska blaðið Telegraph ræddi við nágranna Al-Shamie sem sagði að lítið hefði farið fyrir honum og fjölskyldu hans. „Hann talaði aldrei við nágranna sína en ég sá hann stundum ganga um í náttfötum og sandölum með innkaupapoka,“ sagði nágranninn.
Öryggis- og heimavarnarráðherra Bretlands hefur staðfest að Al-Shamie hafi ekki verið þekktur af lögreglu- eða öryggisyfirvöldum. Hann starfaði meðal annars sem kennari í ensku og tölvuforritun.
Lögregla handtók tvo karlmenn á þrítugsaldri og konu á sextugsaldri í gær sem grunuð eru um að tengjast árásinni.