Bjarni skrifar grein um málið í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Skattahækkun á ökutæki hærri en hækkun veiðigjalda.
Bjarni segir að gert sér ráð fyrir að vörugjöldin fari úr 10.650 milljónum króna á þessu ári í 17.700 milljónir króna á næsta ári. Er hækkuninni ætla að auka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða króna sem er 100 milljónum krónum minna en hækkun veiðigjalda mun skila.
„En við þetta má bæta að síðan er ætlunin að auka skattheimtu á ökutæki enn frekar með breytingu á kílómetragjaldinu, sem skila á ríkissjóði um fjórum milljörðum króna umfram skattalækkanir á móti. Samanlögð er fyrirhuguð tekjuaukning ríkisins af ökutækjum áætluð um 11,3 milljarðar króna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2026,“ segir Bjarni.
Hann segir að engar forsendur séu fyrirliggjandi sem benda til þess að sala nýrra bíla vaxi það mikið að fjölgunin dekki þessa auknu skattheimtu.
„Í framkvæmd munu skattahækkanirnar birtast í hærra verði á nýjum bílum, sem draga mun úr bílasölu og því í raun minnka tekjur ríkissjóðs af henni. Ef þetta verður raunin þá mun skattahækkunin hafa neikvæð áhrif á verðbólguþróun og hamla gegn vaxtalækkun stýrivaxta Seðlabankans,“ segir hann.
Bjarni hefur áhyggjur af þessu og segir að samkvæmt ofangreindu – og verði áætlun stjórnvalda að veruleika – séu verulegar líkur á því að sala nýrra bíla hér á landi sé á leið í enn eitt samdráttarskeiðið með þeim þekktu afleiðingum sem fyrirtæki þurfa jafnan að ráðast í til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
„Fyrir því eru mörg þekkt fordæmi og sum mjög nýleg. Á sama tíma er bílafloti landsmanna á ný orðinn einn sá elsti í Evrópu og ef heldur fram sem horfir mun fyrirsjáanlegur samdráttur í bílasölunni vinna á móti markmiðum um orkuskipti í samgöngum og þar með alþjóðlegum loftslagsmarkmiðum. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig þetta verður útfært,“ segir Bjarni að lokum í grein sinni.