Íslenskur maður greinir frá því að netglæpamanni hafi tekist að svíkja út mikinn pening frá móður hans. Einkum með því að panta vörur í gegnum síður eins og Temu. Hann segir engar sannanir séu fyrir því að hún hafi auðkennt greiðslurnar eins og bankinn heldur fram og neitar að endurgreiða henni.
Maðurinn greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit og spyr aðra hvort þeir hafi reynslu af svikum sem þessum. Það er að peningur hafi verið tekinn af kortinu nýlega.
„Mamma mín lenti í því að einhverjum óprúttnum aðila tókst að panta fyrir mjög mikinn pening í hennar nafni á síðum eins og Temu, en bankinn vill meina að hún hafi auðkennt þessar greiðslur (sem hún gerði aldeilis ekki),“ segir maðurinn. Segir hann að móðir sín sé í viðskiptum við Landsbankann.
„Ég er að upplifa rosa mikið að bankinn sé að hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni frekar en viðskiptavina sinna og það eina sem við fáum frá þeim er í raun bara „sorry en þar sem þú auðkenndir getum ekkert gert,“ segir maðurinn. „Þó svo að það séu engar sannanir fyrir því að mamma hafi auðkennt þetta.“
Segir maðurinn það koma á óvart að netglæpamenn komist upp með svona. Færslurnar séu mjög vafasamar.
„Þetta eru MJÖG dubious færslur og ég er eiginlega bara í sjokki að bankinn sé ekki með eitthvað kerfi sem flaggar svona færslur löngu áður en þær fara í auðkenningu til að byrja með,“ segir hann. Það er nokkrar færslur sem framkvæmdar voru með um mínútu millibili. Jafnframt að bankinn sem hann sjálfur sé í viðskiptum við geri það fyrir miklu lægri upphæðir. „og í þokkabót hringdi bankinn í hana af fyrra bragði innan við hálftíma eftir að færslurnar höfðu verið samþykktar, en gat samt ekki afturkallað þetta og skildi í raun alla ábyrgðina eftir hjá mömmu að fara og finna út úr þessu sjálf,“ segir hann og spyr hvort aðrir netverjar hafi lent í svipuðum svikum og hvernig það hafi endað.
Einn greinir frá því að það hafi verið keyptar áskriftir á kortið hans. Það er á streymisveituna Crunchyroll.
„Ég lenti í því í janúar að það voru keyptar tvær ársáskriftir á Crunchyroll með debetkorti sem ég nota eiginlega aldrei. Það var eiginlega algjört glappaskot að það var yfir höfuð nægur peningur á kortinu til þess að það var hægt að nota það til að borga fyrir þetta,“ segir hann. „Þetta gerðist rétt eftir miðnætti en ég var sem betur fer vakandi og var sem betur fer með það stillt þannig að ég fæ meldingu í símann í hvert skipti sem kortin mín eru notuð þannig að ég tók eftir þessu um leið og það gerðist. Ég hafði samband við sólarhringsþjónustu bankans (eða greiðslumiðlunarinnar, man það ekki alveg) eins og skot og lét þau vita af því að þessar færslur voru ekki á minni vegu. Þau fóru strax í málið og ég fékk endurgreitt u.þ.b. viku síðar.“
Annar greinir frá því að hafa lent í sams konar máli með fjölskyldumeðlim. Bankinn hafi aðstoðað við að loka öllu saman.
„Fyrir það fyrsta þá er peningurinn því miður glataður og viðkomandi situr eftir með skuldina,“ segir hann.
En kortinu var lokað strax, auðkenni lokað og sótt um nýtt og síminn hreinsaður þar sem líklega hafi verið einhver búnaður sem geri þjófum kleift að nota auðkennið í honum.
„Fá svo samband við svikadeild bankans og fá þá til að loka á færslur frá þessum aðilum,“ segir hann.