Felix Bergsson, leikari og fyrrum útvarpsmaður, segir hatursfulla orðræðu gegn hinsegin samfélaginu vera að harðna hérlendis. Eitt sé að svokölluð tröll á netinu beri á borð slíka orðræðu, en annað sé uppi á teningnum þegar alþingismenn séu farnir að kynda undir slíkri orðræðu með einhverskonar „mér finnst“ rökum.
Felix greinir frá samtali sem hann átti við bandaríska konu sem var á leið hingað í frí frá ástandinu vestanhafs, sem varð til þess að Felix stakk niður færslu á Facebook. Nefnir hann engan á nafn en augljóst er af fréttum síðustu daga að orð hans beinast að Snorra Mássyni þingmanni Miðflokksins.
„Samtal í flugvél – sönn saga. Í flugi á dögunum sat ég við hliðina á vingjarnlegri ungri konu frá Seattle í Bandaríkjunum. Við tókum tal saman, enda Bandaríkjamenn alltaf til í að rabba. Tal okkar varð hins vegar mjög fljótt alvarlegt.
Hún sagði mér að hún væri að fara í stutt frí til „að komast burt frá Bandaríkjunum og anda“ eins og hún orðaði það. Nýlega hafði hún nefnilega orðið fyrir árás. Hún var á gangi með bestu vinkonu sinni, sem er trans. Skyndilega voru þær umkringdar af hópi manna sem réðust að þeim með svívirðingum og fúkyrðum og hótunum. Sérstaklega beindu þeir spjótum sínum að vinkonunni. Þegar sætisfélagi minn kom vinkonu sinni til varnar var hún kýld í andlitið og nefbrotin. Í kjölfarið drógu þeir upp byssu og hótuðu þeim lífláti.
„Svona er staðan í Bandaríkjunum“, sagði hún. „Stjórnmálamenn hafa gefið hrottunum lausan tauminn með því hvernig þeir tala um landa sína.“ Þær voru semsagt raunverulega í lífshættu fyrir að vera til.“
Felix segir stúlkuna ekki ógn við nokkurn einasta mann. Það eina sem hún hafði sér til saka unnið var að standa með mannréttindum og mannvirðingu vinkonu sinnar.
„Ég fann svo til með henni. Það á enginn að verða fyrir svona ofbeldi fyrir það eitt að vera til. Vera sá sem maður er.“
Segir Felix að honum hafi verið hugsað til stöðunnar á Íslandi, en hér hefur orðræðan harðnað undanfarið.
„Látum tröllin á internetinu vera (þó það sé nógu slæmt) en verra er að einstöku alþingismenn eru farnir að voga sér að skara eld að þeirri eldfimu umræðu með einhvers konar „mér finnst“ rökum.
Mér finnst kynin bara vera tvö.
Mér finnst ÍSLENSKAR konur ekki eignast nógu mörg börn.
Mér finnst ekki vera nein hatursorðræða eða bakslag í málefnum hinsegin fólks.
Mér finnst ég vera mjög frjálslynd/ur.
Mér finnst ég mega segja hvað sem ég vil.
Mér finnst þú ekki mega vera það sem þú ert.
Ef einhver vina minn þekkir til, er vinur eða er í fjölskyldu þessara alþingismanna þá bendið þeim endilega á að óábyrgt blaður þeirra um hinsegin fólk og önnur sem leyfa sér að vera þau sem þau eru, er ekki bara ævintýralega heimskulegt.
Það er hættulegt.“