Ágúst Ólafur er fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og var til dæmis varaformaður flokksins á árunum 2005 til 2009.
Sjá einnig: Ágúst Ólafur færir sig frá borginni eftir stutt stopp yfir í menntamálaráðuneyti
Staksteinar Morgunblaðsins gera málið að umtalsefni og segir höfundur að ýmislegt áhugavert sé við ráðninguna á Ágústi Ólafi.
„Spyrja má hve lengi Ágúst Ólafur hafi verið félagi í Flokki fólksins því aðstoðarmenn ráðherra eru ekki eins og hverjir aðrir ritarar og töskuberar; auk þeirra skyldna eru þeir nefnilega pólitískir trúnaðarmenn ráðherra,“ segir í Staksteinum í dag.
„Svo verður ekki nú. Öllum er ljóst að Ágúst Ólafur, fv. varaformaður Samfylkingar, er yfirfrakki Samfylkingar á ráðherra Flokks fólksins, sem hvorki virðist valda né hafa áhuga á viðkvæmum málaflokki grunnskóla. „Ég nenni ekki einu sinni að gá að því,“ var svar hans við spurningu um hvers vegna samræmd próf hefðu verið aflögð,“ segir enn fremur og vísar staksteinahöfundur í viðtal Bítisins á Bylgjunni við Guðmund Inga á dögunum sem mbl.is fjallaði um.
Segir höfundur það „algjöra nýlundu“ að stjórnarflokkur skipi ráðherra annars flokks pólitískan gæslumann.
„En hver veit? Kannski fyrri ríkisstjórn lifði enn hefði Svandísi Svavarsdóttur hugkvæmst og fengið að gera Björn Val Gíslason að aðstoðarmanni Jóns Gunnarssonar,“ segir enn fremur og skýtur staksteinahöfundur á Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra að lokum.
„En svo er áhyggjuefni fyrir bæði borgarbúa og Heiðu Björgu Hilmisdóttur, sem varð borgarstjóri fyrir aðeins hálfu ári, hvað henni helst illa á aðstoðarmönnum. Katrín M. Guðjónsdóttir entist ekki í þrjá mánuði hjá henni og Ágúst Ólafur í aðeins tíu vikur.“