fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Fréttir

Bendir á þessa hvimleiðu hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif á háannatíma

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 21. ágúst 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu ekki ráða við þann fjölda sem fer af stað á haustin þegar rútína vetrarins hefst, skólar byrja og fólk kemur til baka úr sumarfríi.

„Það er einfaldlega staðreynd að það er eitt vegakerfi hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það bara ræður ekki við þennan fjölda sem er að fara af stað á sama tíma, svona sirka tvisvar á dag. Það er að segja á morgnana og svo síðdegis, og þá verða þessar miklu umferðartafir sem við erum búin að finna fyrir núna, síðustu alla vega síðustu þrjá daga.“

Segir Árni í viðtali í Bítinu á Bylgjunni að við þetta myndist umferðarpirringur. 

„Það náttúrlega bara að myndast þessi skemmtilegi umferðarpyrringur sem menn eru að steyta hnefa og flauta á hvorn annan og gefa puttann og veit ekki hvað og hvað.“

Segir hann að svo virðist vera sem fólk hafi minni þolinmæði. Og bendir hann á að búið sé að rannsaka þetta fyrirbæri, umferðarsálfræði sé til sem grein og skemmtilegar niðurstöður sem koma þar frá.

„En þetta er í sjálfu sér ekkert flókið. Það er bara á þessum tíma, morgunumferð og síðdegisumferð, við komumst ekkert hraðar með því að steyta hnefa eða vera með einhvern pirring.“

Um sé að ræða klukkutíma á morgnana frá kl. 8-9 og seinni partinn geti verið um lengra tímabil að ræða, frá kl. 15-17.

Væri lausn að breyta fjölda akreina á álagstímum?

Aðspurður um hvort sé ekki hægt að breyta fjölda akgreina eftir álagi yfir daginn, til dæmis að að morgni séu þrjár í aðra áttina en aðeins ein í hina og síðan öfugt seinni partinn,  svarar Árni: „Það er auðvitað hægt að gera margt. Íslenskt umferðarsamfélag, ef við getum orðað það þannig, hefur ekki mikið farið í þetta. En ég man allavega eftir nokkrum tilvikum þar sem þetta hefur verið gert aðeins, eins og þegar kristnitökuhátíðin á Þingvöllum var. Þá var breytt í gegnum Mosfellsbæ og Þingvallavegurinn, þá var sett einstefna í sitt hvora áttina miðað við dagskrá.“

Segir hann þessa aðferð framkvæmanlega, en útheimta mikið af merkingum og veghaldari hverju sinni, Vegagerðin og síðan sveitarfélögin eða Reykjavíkurborg, hafi ekki rætt mikið þessa aðferð. Segir hann þessa aðgerð geta liðkað að einhverju leyti fyrir.

„Það sem ég held að sé stóri punkturinn í alla vega morgunumferðinni, það er að skoða það alvarlega að að dreifa hvenær skólar byrja, hvenær stór fyrirtæki eru að byrja og stofnanir. En þetta kostar þá. Ég veit að á sínum tíma var Landspítalinn að spá í þetta, seinka vaktaskiptum eða setja þau fyrr af stað. En þá náttúrlega kemur þetta, fjölskyldufólk þarf að koma börnunum í skóla eða dagvistun, leikskóla.“

Hefur fjölgun strætóferða áhrif?

Strætó breytti leiðakerfi sínu 17. ágúst síðastliðinn með fjölgun ferða á mörgum leiðum á háannatíma. Aðspurður um hvort það hafi áhrif segir Árni:

„Já, það gæti haft einhver áhrif, en það sem ég held að skipti höfuðmáli er það er þessi tímalengd sem það tekur hvern og einn að fara frá sínu heimili á áfangastað. Ef það er hægt að stytta hana. Ég bý í Kópavogi og mín starfsstöð er hjá lögreglunni á Hverfisgötu, og það tekur mig um það bil fjörutíu og fimm mínútur að taka strætó þessa leið. Það skiptir mig svo sem ekki miklu máli hvort ég fari 10 mínútum fyrr eða seinna. En ef þetta myndi stytta tímalengdina þannig að ég væri ekki allar þessar mínútur á leiðinni, þá myndi ég íhuga það mjög alvarlega að nota almenningssamgöngur. En svo er hinn parturinn líka sem við verðum að skoða og það er til dæmis með aukningu hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu. Við hjá lögreglunni höfum gert það að hvetja fólk til að nota reiðhjól í og úr vinnu. Þetta er náttúrulega bara frábær ferðamáti og ég tala nú ekki um lýðheilsuáhrifin.“

Í næstu viku hefst kennsla í grunnskólum og þá fjölgar ungum vegfarendum, og mörgum sem eru að læra umferðarreglurnar í fyrsta sinn, hvernig á að fara yfir gagnbraut og svo framvegis. Árni segir það gera miklar kröfur til ökumanna.

„Það er náttúrlega bara skýlaus krafa til allra vegfarenda í umferð að huga að því að við erum að fá heilan árgang af börnum út í umferðina. Ég ætla ekki að vera leiðinlegur við alla ökumenn á höfuðborgarsvæðinu en en við höfum ekki staðið okkur nógu vel. Það hefur verið mikill hraðakstur mjög mikill í sumar innan borgarmarka. Viðhöfum fengið þessi slys á ungum vegfarendum sem er mjög sorglegt að tala um. Þannig að þetta svona spilast allt inn í að einhvern veginn hefur umferðin í sumar og það sem er af þessu ári, bara hún hefur ekki verið góð. Það hefur ekki verið góð ára yfir umferðinni.“

Árni sem hefur verið lengi í umferðarmálunum segist upplifa að ástandið sé að versna. Segist hann ekki vita hver skýringin sé. Nefnir hann að mikil fólksfjölgun hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu og því ekki óeðlilegt að umferðin sé þyngri og erfiðari.

Hvimleið hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif

Bendir hann á hvimleiða hegðun ökumanna í umferðinni. 

„Við erum að sjá það núna síðustu daga að fólk er að fara út á gatnamótin, vitandi það að þau komast ekki yfir þau. Og þá myndast þetta að þveruumferðin kemst ekki sínar leiðir. Þetta er í umferðarlögum og er bara sekt við þessu. En þetta er bara svo mikið tillitsleysi. Og það sem gerist er að náttúrulega þveruumferðin, hún er þá bara stopp líka. Og þetta verða svo mikil gormaáhrif. Það er bara allt höfuðborgarsvæðið orðið stopp af því öll gatnamót heimsins eru stífluð. Það er fast í þjóðarsálinni að við eigum að vera fimm mínútur að drífa okkur. Maður þekkti síðan í gamla daga þegar maður var að stunda íþróttir og var að fara á kappleiki eða á æfingu að það var nóg að leggja af stað fimm mínútur áður en æfingin byrjaði. Staðreyndin er bara önnur í dag.“

Aðspurður um ljósabúnað segir Árni marga nýja bíla með autostillingu sem kveiki ekki afturljós. Samkvæmt lögum eigi ökumenn að hafa ljósin kveikt, allan ársins hring.

„Það er bara þessi ábyrgð sem er sett á á ykkur sem ökumenn. Þið eigið bara að tendra ljós á bílnum. Þetta er náttúrlega orðið svo mikið að það væri óskandi að við værum með mannafla í þetta, og eins með stefnuljósin. Mér finnst samt sem áður að stefnuljósanotkun, hún er aðeins að aukast. Svona alla vega lifi ég í þeirri von. Við verðum bara að sýna kurteisi í umferðinni og draga andann.“

Hlusta má á viðtalið við Árna í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Maður í gæsluvarðhaldi vegna hraðbankamálsins – Einnig grunaður um ránið í Hamraborg

Maður í gæsluvarðhaldi vegna hraðbankamálsins – Einnig grunaður um ránið í Hamraborg
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Selfyssingur í vanda út af dularfullum niðursuðudósum

Selfyssingur í vanda út af dularfullum niðursuðudósum
Fréttir
Í gær

Daði Már: „Þetta er hlut­ur sem ég tek mjög al­var­lega“

Daði Már: „Þetta er hlut­ur sem ég tek mjög al­var­lega“
Fréttir
Í gær

Lögregla hafði afskipti af verulega ölvuðum 15 ára börnum

Lögregla hafði afskipti af verulega ölvuðum 15 ára börnum
Fréttir
Í gær

Kröfðust þess að fá að halda áfram að dæla svínaskít út í sjó við Kjalarnes og Vatnsleysuströnd

Kröfðust þess að fá að halda áfram að dæla svínaskít út í sjó við Kjalarnes og Vatnsleysuströnd
Fréttir
Í gær

Jón Þór fluttur í opið fangelsi – Reyndi að myrða barnsmóður sína á Vopnafirði í fyrra

Jón Þór fluttur í opið fangelsi – Reyndi að myrða barnsmóður sína á Vopnafirði í fyrra