Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldskúrskurð yfir tveimur mönnum sem viðriðnir eru stórt fíkniefnabrot sem varðar vörslu á tæplega 3 kg af MDMA kristöllum og tæplega 1.800 MDMA töflum, en efnin fundust í skrifstofuhúsnæði að Bæjarlind 2 í Kópavogi. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Miðvikudagskvöldið 2. október 2024 komu þrír menn í húsnæðið til að sækja efnin en lögreglan hafði áður skipt kristöllunum út fyrir gerviefni. Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur yfir öðrum mannanna, sem Landsréttur hefur staðfest, segir:
„Að kvöldi 2. október sl. sá lögregla hvar kærði og tveir samverkamenn hans sóttu meint fíkniefni að […]og sést það vel á myndbandsupptöku lögreglu. Eftir að hin meintu fíkniefni höfðu verið sótt fóru kærði og samverkamaður hans í bifreið og óku á brott en annar samverkamaður var sóttur af öðrum ökumanni sem ók í aðra átt.
Í kjölfarið fór lögregla og handtók kærða og samverkamann hans en þeir voru í bifreið sem stöðvuð varaf lögreglu rétt við […]. Við leit á sakborningum og í bifreiðinni fundust ætluð fíkniefni, þ.e. gerviefnin sem lögregla hafði skipt út fyrir 2.943,38 g af MDMA kristöllum, ásamt töluverðum fjölda af MDMA töflum, 1781 stykki. Lögregla réðst í húsleit á heimili annars samverkamannsins og þar fannst einnig umtalsvert magn meintra fíkniefna sem lögregla lagði hald á. Við skýrslutöku hjá lögreglu neitaði kærði að eiga umrædd fíkniefni en hann kvaðst hafa verið að skutla vini sínum heim og kvaðst ekki hafa vitað hvað hann var með í fórum sér.“
Í úrskurðinum segir að maðurinn hafi verið yfirheyrður þrisvar og ávallt haldið því fram að hann hafi ekkert vitað um efnin. Honum hafa verið sýndar myndir sem sýna hann og samverkamenn hans sækja efnin í Bæjarlind en hann segist ekki hafa haft hugmynd um hvað þeir voru að ná í. Að mati lögreglu er framburður mannsins einkar ótrúverðugur.
Maðurinn hefur ásamt tveimur öðrum þegar verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot í þessu máli og er málið til meðferðar hjá dómstólum. Er gæsluvarðhaldsins krafist á grundvelli almannahagsmuna þar sem brot mannsins getur varðað allt að 12 ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur. Er talið að það muni særa réttarvitund almennings og valda samfélagslegum óróa ef hann verður látinn laus á þessu stigi.
Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald til 16. október. Sjá nánar hér.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt að mennirnir væru ákærðir fyrir innflutning fíkniefna. Það er ekki rætt heldur varðar ákæran vörslu fíkniefna. Beðist er afsökunar á þessu.