„Prófaði nýju göngubrúna yfir Sæbraut – auðvitað ber að fagna henni. Hún er víst til bráðabirgða (bráðabirgða geta verið í 30 ár hérlendis). Ég hef klórað mér í höfðinu yfir hönnuninni – af því hún er frekar „sérstök í útliti“.“
Andri segir að hann hélt að brúin „væri einhverskonar pakkadíll frá Kína frekar en frumhönnun.“
„Ég var alltaf að bíða eftir að græna vinnupallaklæðningin yrði tekin af henni en þessi græni litur er víst notaður af ásettu ráði. (Er þetta skurðlæknagrænn?). Lyftuturninn er klæddur með þverliggjandi bárujárni með bláum röndum að því er virðist til „skrauts.“ Ég var líka að bíða eftir að járnið yrði tekið af svo að „raunverulega“ áferðin sæist, glerlyftan undir járninu en hún virðist líka eiga að vera svona.“
Andri segir að það sé eins og þrír ólíkir einstaklingar hafi hannað sitthvorn hluta af brúnni án þess að vita hvað hinir voru að gera.
„Liturinn í þakinu er eins og reffinn hafi verið regnbogaþakið í Árósum eftir Ólaf Elíasson en einhver á næsta skrifborði fékk að hanna útveggina í öðrum grænum tón heldur en græni liturinn í regnbogaþakinu og það skapar vissulega ákveðna spennu sem bætist við að þriðja skrifborðið fékk að gera lyftuturninn án þess að neinn sæi hvað hinn gerði. Blái liturinn á lyftuturninum er síðan annar blá tónn en liturinn á þakinu,“ segir hann og bætir við:
„Ósamræmið í litum býr til tilfinningu um að hér séu þrjú óskyld mannvirki í einum hnapp af því turninn talar ekki við stigann heldur, önnur áferð á málminum þar.“
Andri er þó hrifinn af sumu. „Rýmið er í sjálfu sér nokkuð bjart og snyrtilegt, stiginn og lyftan sömuleiðis, allt úr góðu og traustu efni og ágætis handbragð – en við eigum ekki margar lyftur í almannarými á Íslandi og ég vona að hún reynist vel,“ segir hann.
„Barnið í mér er alltaf smá hrætt við að hitta pönkara í lokuðu rými og því er upplifunin talsvert önnur en á brúnum yfir Miklubraut. Verkís er skráð fyrir hönnun verksins – og Vegagerðin líka – almennt séð má segja að verkið ýti nokkuð undir áhyggjur mínar af íslenskri verkfræði og afgerandi áhrifum hennar í öllu okkar borgarlandslagi, því miður er svo margt sem menn hafa búið til síðustu ár – „mjög sérstakt“ í útliti og oft erfitt að skilja ný umferðarmannvirki og lógíkina á bak við þau. Það mætti herða eitthvað á einhverjum áföngum hvað varðar hönnun og listasögu áður en fólki er sleppt út í náttúruna til að raða saman mörgum tonnum af gleri og járni.
Það væri fróðlegt að vita hvers vegna þetta útlit varð niðurstaða aðila sem ættu að hafa aðgang að góðri ráðgjöf hvað varðar hönnun, litaval og annað.“