Maður sem var sviptur ökurétti ævilangt árið 2014 fær ekki réttindin endurveitt að svo stöddu. Þetta kemur fram í úrskurði sem var birtur á vef Innviðaráðuneytisins en þangað kærði maðurinn þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðisins að synja honum um endurveitingu ökuréttar. Úrskurður ráðuneytisins í málinu var að staðfest ákvörðun lögreglustjóraembættisins.
Forsaga málsins er sú að maðurinn var, eins og áður segir, sviptur ökuréttindum ævilangt árið 2014 með dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Rúmum tíu árum síðar sótti maðurinn síðan um endurveitingu ökuréttar með vísun í ákvæði umferðarlaga sem segir að heimilt sé að veita aðila, sem sviptur hefur verið ævilangt, ökuréttindi þegar svipting hefur staðið yfir í fimm ár og þá aðeins ef að sérstakar ástæður mæli ekki gegn því.
Maðurinn hafi hins vegar tvívegis árið 2022 og 2023 gengist undir sáttir vegna brota gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni. Þá hefði hann ekki gert upp sakarkostnað úr áðurnefndum dómi sem leiddi til ævinlangrar sviptingar, eitthvað sem maðurinn reyndar mótmældi. Hann hafi reynt að borga en ekki haft erindi sem erfiði.
Með hliðsjón af þessu taldi lögreglan að maðurinn hefði ekki sýnt af sér þá reglusemi sem sé skilyrði er fyrir endurveitingu ökuréttar.
Þessa ákvörðun embættisins kærði maðurinn til ráðuneytisins og taldi áðurnefnd brot hafa lítið vægi. Ráðuneytið var á öndverðum meiði og tók undir mat lögreglu. Brotin á sviptingartímabilinu hafi „töluvert vægi“ og bendi til þess að skilyrði um reglusemi séu ekki uppfyllt. Þá hafi ekki verið liðið nægilega langur tími frá síðasta broti þegar umsóknin var lögð fram.
Niðurstaða ráðuneytisins var því að staðfesta synjun lögreglustjóra frá 27. júní 2024. Maðurinn fær því ekki ökuréttinn endurveittan að svo stöddu.